Innlent

Íslenska ríkið líklega bótaskylt

Íslenska ríkið verður að öllum líkindum bótaskylt gagnvart starfandi fyrirtækjum á ljósvakamarkaði verði nýtt frumvarp ríkisstjórnarinnar um eignarhald á fjölmiðlum að lögum. Þetta kom fram í máli Bjarna Benediktssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, á fundi sem Vörður, fulltrúaráð sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík, hélt í gær. Ástæðan fyrir bótaskyldu er sú að í nýju lögunum mun útvarpsréttarnefnd geta afturkallað útvarpsleyfi þegar lögin taka gildi 2007. Í fjölmiðlalögunum sem samþykkt voru frá Alþingi í vor og forseti synjaði staðfestingar var útvarpsleyfum leyft að renna út. "Í gagnrýni á þessi nýju lög hefur verið bent á að þetta ákvæði sé mikil þrenging á réttindum starfandi ljósvakamiðla. Má það hugsanlega til sanns vegar færa," sagði Bjarni. Benti hann á að í nefndaráliti allsherjarnefndar, sem hann fer með formennsku fyrir, hafi verið gerð athugasemd við sams konar ákvæði sem voru í lögunum fyrir síðustu breytingar á þeim. Hugsanlegt sé að nýju lögin brjóti í bága við 72. grein stjórnarskrárinnar er varðar eignarrétt. "Það þýðir þó ekki að lögin sem slík brjóti í bága við stjórnarskrána," sagði Bjarni. Geir H. Haarde fjármálaráðherra sagði meðal annars á fundinum að með nýju gildistökuákvæði geti forseti Íslands ekki notað sömu rök og áður ef hann synjaði þeim staðfestingar. Spurningar um fyrirkomulag þjóðaratkvæðagreiðslu myndu vakna að nýju og væri forsetinn þá "kominn enn dýpra í stjórnmáladeilur samtímans," að því er Geir sagði.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×