Innlent

Hafsteinn á Ólympíuleikana

Hafsteini Ægi Geirssyni, siglingamanni úr Siglingaklúbbnum Þyt í Hafnarfirði, hefur verið boðin þátttaka á Ólympíuleikunum í Aþenu nú í sumar. Hafsteinn hefur sl. fjögur ár stefnt markvisst að þátttöku í leikunum og á HM sem fram fór í Tyrklandi í maí var hann aðeins tveimur sætum frá því að tryggja sér ólympíusæti. Þetta kemur fram á vefsíðu Siglingasambands Íslands í dag. Stjórn Alþjóða siglingasambandsins ákvað á fundi sínum í byrjun júní að fara þess á leit við Ólympíunefndina að fá að fjölga sætum í svokölluðum Laser-flokki á leikunum og bauð í framhaldi af því fjórum siglingamönnum að bætast við, þ.á m. Hafsteini Ægi. Ólympíunefndin hefur nú samþykkt beiðni Alþjóða siglingasambandsins  Hafsteinn hefur á sl. fjórum árum sýnt góðan árangur í mjög harðri keppni í þessum flokki siglinga. Hann hefur tekið þátt í fjölmörgum mótum og lenti m.a. í 3. sæti á Smáþjóðaleikunum á Möltu sl. sumar, 19 sæti á sterku alþjóðlegu móti í Frakklandi í fyrra og í vor náði hann 8. sæti í sínum flokki á Evrópubikarmóti. Þetta er í fjórða skipti sem íslenskir siglingamenn taka þátt í Ólympíuleikum. Hafsteinn tók þátt í leikunum í Sydney árið 2000 og þá áttu Íslendingar keppendur á leikunum í Seúl árið 1988 og í Los Angeles 1984.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×