Fótbolti

Gündogan missir af EM

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gündogan verður ekki með þýska landsliðinu á EM í sumar.
Gündogan verður ekki með þýska landsliðinu á EM í sumar. vísir/getty
Ílkay Gündogan, miðjumaður Borussia Dortmund, er meiddur á hné og verður ekki með Þjóðverjum á EM í Frakklandi í sumar.

Gündogan meiddist á æfingu á dögunum og verður ekki meira með á tímabilinu. Hann missir af tveimur síðustu leikjum Dortmund í þýsku úrvalsdeildinni auk bikarúrslitaleiksins gegn Bayern München.

Dortmund á veika von að vinna þýska meistaratitilinn en liðið er fimm stigum á eftir Bayern sem situr á toppi deildarinnar.

Gündogan, sem kom til Dortmund frá Nürnberg 2011, hefur verið mikið frá vegna meiðsla undanfarin ár og missti m.a. af öllu tímabilinu 2013-14 og HM 2014.

Gündogan, sem hefur leikið 16 landsleiki og skorað fjögur mörk, hefur verið orðaður við Manchester City að undanförnu. Hann á tvö ár eftir á samningi sínum við Dortmund.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×