Fótbolti

Gündogan gerir nýjan samning við Dortmund

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ilkay Gündogan.
Ilkay Gündogan.
Ilkay Gündogan, miðjumaður Dortmund og þýska landsliðsins í knattspyrnu, ætlar að vera áfram hjá Dortmund en hann skrifaði undir nýjan tveggja ára samning við félagið í dag.

Gündogan er eftirsóttur af Manchester United og Bayern München en þessi öflugi miðjumaður, sem hefur verið mikið frá á leiktíðinni vegna bakmeiðsla, er ánægður á Signal Iduna Park.

„Ég er mjög ánægður með að félagið gefi mér tækifæri til að vera áfram í röðum þessa sérstaka liðs og í þessu einstaka umhverfi. Ég mun gera allt til að hjálpa félögunum eins og fljótt og ég get,“ segir Ilkay Gündogan.

„Við erum mjög ánægðir með þennan samning og vonumst til að Ilkay komi til með að geta beitt sér að fullu á komandi árum fyrir Dortmund,“ segir MichaelZorc, yfirmaður knattspyrnumála hjá Dortmund.

Gündogan kom til Dortmund frá Nürnberg sumarið 2011 og hefur verið lykilmaður í liðinu síðan. Hann spilaði 56 deildarleiki af 68 fyrstu tvö tímabilin en hefur aðeins komið einu sinni við sögu á yfirstandandi leiktíð vegna meiðsla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×