Gagnrýni

Fyrstu og erfiðustu skrefin

Sigríður Jónsdóttir skrifar
Leikhús

Samfarir hamfarir

Tjarnarbíó

Handrit Natan Jónsson og Þórunn Guðlaugs

Leikstjórn Natan Jónsson

Leikur Þórunn Guðlaugs, Ársæll Níelsson og Aðalsteinn Oddsson

Tæknimeistari Kristinn Ágústsson

Tónlist og hljóðheimur Einar Sv. Tryggvason

Sviðsmyndahönnun Þórunn Guðlaugs og Natan Jónsson

Búningahönnun Ella Reynis



Ný íslensk leikskáld spretta ekki fram á sjónarsviðið á hverjum degi. Hvað þá ung leikskáld. Um þessar mundir er leikverkið Samfarir hamfarir sýnt í Tjarnarbíói en handritið er skrifað af Natani Jónssyni og Þórunni Guðlaugs, sem bæði eru útskrifuð úr Kvikmyndaskóla Íslands. Verkið fjallar um æsku- og unglingsár ungrar konu, einnig kölluð Þórunn, og tilraunir hennar til að finna sinn stað í samfélagi sem endalaust setur henni skorður, ósanngjarnar reglur og dæmir miskunnarlaust.

Þrátt fyrir ágæta tilburði nær Þórunn aldrei að gefa þessari ungu konu nægilega breidd. Hún er föst í sama frásagnarhorfinu og vandræðatilburðirnir verða fljótt eintóna. Það vantar meiri reiði, stærri hvörf og sterkari líkamsbeitingu í hennar leik. En einlægnin skilar sér og sumar sögurnar eru sérstaklega sárar, þá sérstaklega um grimmd unga fólksins sem lætur mistök aldrei gleymast.

Ársæll Níelsson leikur innri rödd, jafnvel samvisku, Þórunnar sem bæði styður hana, hjálpar henni að rifja upp liðna tíma en spyr stundum óþægilegra spurninga. Hann fer vel með efnið og finnur áhugaverða fleti á þessum annars flata karakter. Aðalsteinn Oddsson leikur mennina í lífi aðalpersónunnar; lítinn hnokka sem gaf Þórunni fyrsta kossinn, niðurbrotinn föður hennar og misvelheppnaða kærasta eða bólfélaga. Því miður eru flestir karakterar hans heldur klisjukenndir þannig að erfitt er að gefa þeim raunverulegt líf.

Sviðsmyndahönnunin er einnig í höndum Þórunnar og Natans. Í stað þess að velja natúralíska uppsetningu umbreyta þau Tjarnar­bíói í einhvers konar taugaboðamiðstöð, þar sem fléttaðir taugaendarnir geyma minningabrot Þórunnar. Innsetningin er áhrifamikil í fyrstu en verður síðan statísk, þrátt fyrir fína ljósahönnun Kristins Ágústssonar og góða hljóðhönnun Einars Sv. Tryggvasonar. Rauðir búningar Ellu Reynis passa illa inn í sviðsmyndina þó fallegir séu. Natan er leikstjóri í þróun en nær sjaldan að setja sitt mark á textann og kveikja undir atriðunum.

Þegar allt kemur til alls ná Natan og Þórunn aldrei að hrista klisjurnar af efniviðnum; samskiptum kynjanna, sorg og kynferðispólitík samtímans. Uppbrotið með tímaflakkinu verður fljótlega fyrirsjáanlegt en aðalpersónan virðist eingöngu vera skilgreind út frá æskuharmi og ömurlegum samskiptum við hitt kynið, ekki út frá sjálfri sér. Áhorfendur vita aldrei hvað hún vill og endirinn er sem klipptur úr eldri Hollywood-kvikmynd.

Þórunn á vonandi eftir að halda áfram, vinna frekar að sínum stíl og gera betur næst, Natan sömuleiðis. Í þessu verki liggja áhugaverðar og krassandi hugmyndir um samtímaraunir ungra kvenna sem vert er að rannsaka betur, ræða og sýna. Verst að vettvangurinn var hreinlega rangur í þetta skiptið. Þó verður að koma á framfæri að verkið myndi sóma sér sem umræðugrundvöllur fyrir framhaldsskólakynslóðina.

Niðurstaða: Ansi brösótt byrjun en ný leikskáld hafa stigið fram.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×