Innlent

Fyrstu kiðlingarnir komnir í heiminn

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Þrír kiðlingar eru í Húsdýragarðinum og von er á fleirum á næstu dögum.
Þrír kiðlingar eru í Húsdýragarðinum og von er á fleirum á næstu dögum.
Geitburður er hafinn í Húsdýragarðinum og eru þrír kiðlingar komnir í heiminn.

Huðnan Frigg var fyrst til að bera og eignaðist hún flekkóttan kiðling á þriðjudagskvöld. Síðan eru komnir tveir til viðbótar en faðir þeirra allra er hafurinn Djarfur. Yfirdýrahirðir líkir fjárhúsinu við fæðingardeild þar sem þrjár nýbakaðar mæður gæta afkvæma sinna vel og hinar eiga að bera á næstu dögum.

Von er á að kiðlingarnir verði allt að tólf talsins og segir dýrahirðir þá vera sérstaklega skemmtileg dýr.

„Þeir eru svo mannelskir. Þeir eru svo fljótir að verða spakir og sækja í börnin. Þannig að það er alltaf mikið líf og fjör þegar þeir koma í heiminn," segir Jón Gíslason, yfirdýrahirðir í Húsdýragarðinum.

Vorboðarnir voru fleiri í borginni í dag þar sem blúshátíð var sett í fimmtánda sinn með skrúðgöngu niður Skólavörðustíg.

„Þetta er svona upptaktur fyrir blúshátíð í Reykjavík sem er á þriðjudags-, miðvikudags- og fimmtudagskvöld með þrennum stórtónleikum," segir Þorsteinn G. Gíslason, stjórnarmaður hjá blúshátíð Reykjavíkur.

Eftir hverja tónleika verða svokallaðir blúsklúbbar settir á laggirnar á Hilton þar sem hátíðin verður. „Þegar tónleikarnir eru búnir fer fólk þangað. Þar er líka svið og frjálsari stemning og þá eru menn svolítið að spinna og leika sér," segir Þorsteinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×