Handbolti

Fyrsti úrslitaleikur þeirra spænsku í sex ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Spænska kvennalandsliðið er komið í úrslitaleikinn á EM 2014.
Spænska kvennalandsliðið er komið í úrslitaleikinn á EM 2014. Vísir/AP
Spænska landsliðið er komið í úrslit á Evrópumóti kvenna í handbolta eftir eins marka sigur í undanúrslitaleik á móti ríkjandi Evrópumeisturum Svartfjallalands í kvöld.

Spánn vann leikinn 19-18 eftir að hafa verið fimm mörkum yfir í hálfleik, 13-8. Spánn mætir annaðhvort Noregi eða Svíþjóð í úrslitaleiknum á sunnudaginn en seinni undanúrslitaleikurinn fer fram seinna í kvöld.

Elisabeth Pinedo var markahæst í spænska liðinu með fimm mörk en Marta Mangué skoraði fjögur mörk. Alexandrina Cabral var frábær í vörn spænska liðsins og í markinu tók Silvia Navarro 18 skot.

Silvia Navarro, sem var líka frábær í stórsigrinum á Dönum í leiknum á undan, varði fimmtíu prósent skotanna sem á hana komu og var líka valinn maður leiksins.

Spænska liðið skoraði þrjú fyrstu mörk leiksins og komst síðan í bæði 7-2 og 12-5. Svartfjallaland minnkaði muninn í fimm mörk í hálfleik með því að vinna síðustu fimm mínútur fyrri hálfleiksins 3-1.

Lið Svartfjallaland gafst ekki upp og vann hægt og róleg upp muninn í seinni hálfleiknum. Liðið náði loks að minnka muninn í eitt mark. 18-17, þegar tæpar tvær mínútur voru eftir en nær komust þær ekki. Spænska liðið hélt út og fagnaði sæti í úrslitaleiknum.

Spænska kvennalandsliðið hefur aldrei orðið Evrópumeistari kvenna í handbolta en tapaði fyrir Noregi í úrslitaleik í Makedóníu árið 2008.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×