Fótbolti

Fyrsti Þjóðverjinn í 40 ár sem skorar þrennu í fyrsta landsleiknum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Serge Gnabry skorar eitt marka sinna.
Serge Gnabry skorar eitt marka sinna. Vísir/Getty
Serge Gnabry fékk draumabyrjun hjá þýska landsliðinu í kvöld þegar hann skoraði þrennu í8 8-0 sigri Þýskalands á San Marinó í undankeppni HM 2018.

Það var orðið afar langt síðan að Þjóðverji skoraði þrennu í sínum fyrsta landsleik. Síðastur á undan Gnabry til að ná því var Dieter Müller sem skoraði þrennu í sínum fyrsta landsleik 17. júní 1976 eða fyrir meira en fjórum áratugum síðan.

Þrenna Dieter Müller var söguleg en hún kom í undanúrslitaleik á EM í Júgóslavíu 1976. Müller kom þá inná á 79. mínútu og tryggði þýska liðinu framlengingu. Müller skoraði síðan tvö mörk til viðbótar í framlengingunni og tryggði þýska liðinu sæti í úrslitaleiknum.

Dieter Müller skoraði líka eitt mark í úrslitaleiknum og varð markakóngur EM 1976 en þýska liðið tapaði úrslitaleiknum eftir vítakeppni á móti Tékkóslóvakíu.

Werder Bremen keypti Serge Gnabry frá Arsenal í sumar og hann fékk nú tækifæri í A-landsliðinu eftir að hafa skorað 4 mörk fyrir Bremen í fyrstu 9 leikjunum á tímabilinu.

Arsenal-menn fengu ekki að sjá mikið af honum. Serge Gnabry spilaði 11 leiki og í aðeins 483 mínútur í ensku úrvalsdeildinni.  Hann var með eitt mark á þessum tíma en markið sem hann skoraði fyrir Arsenal í ensku úrvalsdeildinni kom í 2-1 sigri á Swansea 28. September 2013.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×