Handbolti

Fyrsti sigur Magdeburgar-liðsins undir stjórn Geirs

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Geir Sveinsson.
Geir Sveinsson. Vísir/Stefán
Geir Sveinsson vann í kvöld sinn fyrsta sigur sem þjálfari Magdeburg í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta þegar lið hans vann fimm marka sigur á heimavelli á móti HC Erlangen.

Magdeburg tapaði naumlega fyrir Rhein-Neckar Löwen í fyrstu umferðinni um síðustu helgi en vann öruggan 31-26 sigur á Erlangen í kvöld eftir að hafa verið 18-9 yfir í hálfleik.

Andreas Rojewski og Robert Weber voru markahæstir hjá Magdeburg með átta mörk hvor og Espen Lie Hansen skoraði sjö mörk. Sigurbergur Sveinsson skoraði fjögur mörk fyrir Erlangen-liðið.

Geir var ekki eini íslenski þjálfarinn sem fagnaði sigri því Dagur Sigurðsson stýrði Füchse Berlin til 32-23 heimasigurs á Bergischer HC. Björgvin Páll Gústavsson varði 9 skot í marki Bergischer og Arnór Gunnarsson skoraði tvö mörk.

Hannover-Burgdorf gerði 23-23 jafntefli við HSV Handball. Ólafur Guðmundsson náði ekki að skora fyrir Hannover-Burgdorf liðið.  Hannover-Burgdorf tapaði fyrir MT Melsungen í fyrstu umferðinni.

Gunnar Steinn Jónsson komst ekki á blað þegar Gummersbach vann 27-26 útisigur á MT Melsungen. Gummersbach gerði jafntefli við HSV Hamburg í fyrstu umferðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×