Innlent

Fyrsti milljónamæringur ársins var á þrekhjólinu þegar símtalið um vinninginn barst

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Maðurinn hafði keypt miðann inni á lotto.is en hafði ekki kíkt þangað inn frá því dregið var í Lottó og þar til hringt var í hann.
Maðurinn hafði keypt miðann inni á lotto.is en hafði ekki kíkt þangað inn frá því dregið var í Lottó og þar til hringt var í hann. vísir
Fyrsti lottóvinningshafi ársins hafði ekki hugmynd um að hann hefði unnið 47,8 milljónir króna um liðna helgi en hann var við sínar reglubundnu morgunæfingar á þrekhjólinu þegar símtalið barst frá Íslenskri getspá.

Maðurinn, sem er eldri borgari á höfuðborgarsvæðinu, hafði keypt miðann inni á lotto.is en hafði ekki kíkt þangað inn frá því dregið var í Lottó og þar til hringt var í hann. Vinningurinn kom honum því ánægjulega á óvart.

Í tilkynningu frá Íslenskri getspá segir að maðurinn hafi þegar í stað hætt að gera æfingarnar á hjólinu þegar honum var sagt frá vinningnum og þegar konan hans sá að hann væri hættur sagði hún við hann að hann væri ósköp latur á hjólinu í dag. Frúin hélt síðan að maðurinn væri að plata þegar hann sagði henni frá milljónunum sem hann vann í lottóinu.

Svo var þó ekki og fóru þau hjónin til Íslenskrar getspár stuttu síðar til að fá vinninginn endanlega staðfestan. Þau líta á milljónirnar sem góðan varasjóð sem þau geta deilt með afkomendum sínum og styrkt betur góð málefni sem þeim eru þeim hugleikin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×