Enski boltinn

Fyrsti leikur Björns Bergmann fyrir Úlfana í tvö ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Björn Bergmann Sigurðarson.
Björn Bergmann Sigurðarson. Vísir/Getty
Björn Bergmann Sigurðarson og félagar í Wolves unnu 1-0 útisigur á Brighton & Hove Albion í ensku b-deildinni í knattspyrnu í dag.

Brighton & Hove Albion var betra liðið í leiknum og fékk fullt af færum en allt kom fyrir ekki og Úlfarnir fögnuðu dýrmætum sigri á útivelli. Heppnin var svo sannarlega ekki með Brighton liðinu því eina mark leiksins var sjálfsmark.

Þetta var langþráður leikur fyrir Björn Bergmann Sigurðarson sem var ekki búin að spila með Wolves í tvö ár. Inn í það blandast tími sem hann var í láni hjá bæði norska félaginu Molde og danska félaginu FC Kaupmannahöfn.

Björn Bergmann kom inná sem varamaður á 67. mínútu leiksins en hann hefur verið í eigu Wolves síðan 2012 þótt að hann hafði spilað með liðinu síðan 21. desember 2013.

Björn Bergmann átti fína spretti á þeim 23 mínútum sem hann spilaði sem lofar góðu fyrir framhaldið. Strákurinn hefur verið óheppinn með meiðsli en er vonandi að ná að sigla út þeim tíma á ferlinum.

Sigurmark Úlfanna var sjálfsmark og það Connor Goldson sem var svo óheppinn að senda boltann í eigið mark á 32. mínútu leiksins.

Wolves vann þarna sinn þriðja leik í röð en liðið hefur unnið alla leiki sína síðan að Björn Bergmann kom inn í hópinn. Björn var ónotaður varamaður í hinum tveimur leikjunum.

Brighton & Hove Albion tapaði ekki í fyrstu tuttugu umferðum tímabilsins og var á toppnum þegar liðið tapaði fyrsta leiknum 19. desember síðastliðinn.

Liðið hefur gefið mikið eftir upp á síðkastið og tapið í dag var það þriðja í síðustu fjórum leikjum. Brighton hefur aðeins náði í 3 stig samtals í síðustu sex leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×