Viðskipti innlent

Fyrsta útgáfa skuldabréfa í Evrópu frá 2006

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Stefán
Ríkissjóður gekk í dag frá samningum um útgáfu skuldabréfa að fjárhæð 750 milljóna evra, eða 116 milljörðum króna. Þetta er fyrsta opinbera skuldabréfaútgáfa ríkissjóðs í Evrópu frá árinu 2006.

„Útgáfa skuldabréfanna markar tímamót og er afar jákvætt skref í endurreisn íslensks efnahagslífs. Ríkissjóður er að sýna fram á fulla burði til þess að fjármagna skuldir sínar á Evrópumarkaði, þeim markaði sem mestu skiptir fyrir fjármögnun ríkja,“ segir Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra.

„Kjör ríkissjóðs á erlendum mörkuðum hafa batnað verulega síðustu mánuði, sem gefur okkur færi á að lækka vaxtagjöld ríkissjóðs og því nýtum við tækifæri nú þegar aðstæður skapast fyrir hagstæða lántöku.

Með útgáfunni er greitt fyrir bættum aðgangi fyrir innlenda aðila sem sækja í erlent lánsfé,“

Samkvæmt tilkynningu á vef Fjármála- og efnahagsráðuneytisins bera skuldabréfin 2,5 prósent vexti og eru þau gefin út til sex ára á ávöxtunarkröfunni 2,56 prósent.

Þá segir að fjárfestar hafi sýnt útgáfunni mikinn áhuga og eftirspurn nam um tveimur milljörðum króna. Fjárfestingahópurinn sé vel dreifður og samanstandi aðallega af fagfjárfestum frá Evrópu og Bandaríkjunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×