Körfubolti

Fyrsta sópið í átta ár?

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Haukur Óskarsson og Darri Hilmarsson mætast í kvöld.
Haukur Óskarsson og Darri Hilmarsson mætast í kvöld. vísir/anton brink
KR og Haukar mætast þriðja sinni í lokaúrslitum Dominos-deildar karla í körfubolta í DHL-höllinni í vesturbæ Reykjavíkur í kvöld.

Leikurinn hefst klukkan 19.15 á Stöð 2 Sport HD en upphitun Dominos-Körfuboltakvölds hefst klukkan 18.30. Vísir verður eins og alltaf með beina textalýsingu frá leiknum.

KR er 2-0 yfir í einvíginu og getur unnið sjötta Íslandsmeistaratitilinn á síðustu tíu tímabilum með sigri í kvöld. Það sem meira er getur KR loksins fagnað aftur á heimavelli en það hefur fagnað síðustu þremur Íslandsmeistaratitlum á útivelli eftir 3-1 sigra árin 2011, 2014 og 2015.

Síðast fagnaði KR Íslandsmeistaratitlinum á heimavelli árið 2009 eftir sögulegan oddaleik gegn Grindavík í einum sögulegasta körfuboltaleik allra tíma á Íslandi.

KR hefur sjö sinnum orðið Íslandsmeistari eftir úrslitakeppni frá því hún var tekin til notkunnar árið 1984. Einu sinni hefur KR sópað andstæðingum sínum en það var fyrir 26 árum þegar KR vann Keflavík, 3-0, í lokaúrslitum 1990.

Haukar geta í kvöld orðið fyrsta liðið sem fær sópinn í lokaúrslitum í átta ár eða síðan Keflavík pakkaði Snæfelli saman, 3-0, í lokaúrslitunum 2008. Keflavík lenti 2-0 undir í undanúrslitum gegn ÍR en vann svo fimm leiki í röð og stóð uppi sem Íslandsmeistari.

Haukar hafa áður fengið sópinn og það tvisvar sinnum. Þeir töpuðu 2-0 fyrir Njarðvík í lokaúrslitum 1986 og 3-0 fyrir Keflavík árið 1993. Hafnafjarðarliðið er nú í fyrsta sinn í lokaúrslitum í átta liða úrslitakeppni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×