Innlent

Fyrsta rafmagnsrútan á Íslandi fer á Selfoss

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Samskonar rafmagnsrúta og er væntanleg til Íslands.
Samskonar rafmagnsrúta og er væntanleg til Íslands.
Nýlega var undirritaður í Peking í Kína samningur um fyrstu rafmagnsrútuna til Íslands. Hún verður í þjónustu hjá Guðmundi Tyrfingssyni ehf., á Selfossi. Samningurinn var undirritaður í viðurvist utanríkisráðherra Íslands, Gunnars Braga Sveinssonar, sem staddur var í Kína í tengslum við fríverslunarsamning milli Íslands og Kína.

Verkefnið á sér langan aðdraganda því Yutong Eurobus á Íslandi hefur frá árinu 2008 unnið með Yutong í Kína varðandi þróun og prófanir á rútum frá Yutong.

Zhengzhou Yutong Bus Co. er stærsti framleiðandi á rútum og strætisvögnum í heimi. Heildarframleiðsla á ári er um 60 þúsund rútur og strætisvagnar. Árlegur vöxtur verksmiðjunnar hefur verið um 6 prósent en nú renna hátt í 300 rútur af færibandinu daglega. Ársvelta verksmiðjunnar nam um 3,6 milljörðum evra árið 2013.

Myndatexti 3: Verksmiðjuhúsnæði Zhengzhou Yutong Bus Co., í Kína það sem framleiddar eru 60.000 rútur og strætisvagnar árlega.
Yutong er leiðandi félag á heimsvísu og hefur unnið til fjölda alþjóðlegra verðlauna og viðurkenninga. Þar má nefna „Best World Coach Manufacturer 2012“. Einnig er verksmiðjan leiðandi í þróun og framleiðslu á rafmagnsvögnum og hefur fjárfest í nýrri 1 milljón fermetra verksmiðju.

Eingöngu er þar unnið að þróun á vögnum knúnum af hreinum orkugjöfum. Framleiðslugeta hinnar nýju verksmiðju fyrir umhverfisvæna vagna er um 30.000 bílar árlega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×