Fótbolti

Fyrsta landsliðsmark Katrínar tryggði stelpunum jafntefli | Sjáið mörkin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Katrín Ásbjörnsdóttir, lengst til vinstri, skoraði jöfnunarmark Íslands.
Katrín Ásbjörnsdóttir, lengst til vinstri, skoraði jöfnunarmark Íslands. Mynd/KSÍ/HIlmar Þór
Ísland og Kína gerðu 2-2 jafntefli í markaleik á Sincere Cup æfingamótinu í Kína. Þetta var fyrsti leikur íslensku stelpnanna á þessu fjögurra þjóða móti.

Ísland var 1-0 yfir í hálfleik en lenti 2-1 undir í seinni hálfleik. Varamaðurinn Katrín Ásbjörnsdóttir tryggði íslenska liðinu jafntefli.

Fanndís Friðriksdóttir kom íslenska liðinu í 1-0 strax á sjöundu mínútu eftir langa sendingu frá fyrirliðanum Söru Björk Gunnarsdóttur.

Íslenska liðið var yfir í hálfleik og fékk tækifæri til að bæta við marki en skalli Fanndísar fór þá í slána og niður.

Wang Shuang jafnaði metin á 53. mínútu og Yang Li kom Kína í 2-1 átta mínútum fyrir leikslok. Íslensku stelpurnar voru hinsvegar ekki á því að tapa þessum leik.

Katrín Ásbjörnsdóttir hafði komið inná sem varamaður á 68. mínútu og hún skoraði jöfnunarmarkið á 86. mínútu. Katrín fékk þá sendingu frá Hólmfríði Magnúsdóttur og skoraði laglega rétt utan markteigs.

Þetta var fyrsta landsliðsmark Katrínar en hún var aðeins að spila sinn þriðja landsleik þar sem hún hefur verið afar óheppin með meiðsli undanfarin ár.

Það er hægt að sjá mörkin úr leiknum á Twitter-síðu kínverska kvennalandsliðsins eða hér fyrir neðan. Fyrst eru íslensku mörkin og svo þau kínversku.


Tengdar fréttir

Að læra innan og utan vallar

Stelpurnar okkar í kvennalandsliðinu í fótbolta hefja leik á fjögurra þjóða æfingamóti í Kína í hádeginu í dag gegn heimakonum. Nýtt leikkerfi verður prófað en landsliðsþjálfarinn Freyr Alexandersson er að undirbúa liðið fyrir allt sem getur komið upp á EM á næsta ári innan jafnt sem utan vallarins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×