Innlent

Fyrsta deildin sem tekin verður í notkun á Hólmsheiði verður fyrir kvenfanga

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá framkvæmdum við fangelsið á Hólmsheiði.
Frá framkvæmdum við fangelsið á Hólmsheiði. vísir/ernir
Alls fjörutíu konur bíða þess að hefja afplánun fangelsisrefsinga en deild fyrir kvenfanga verður fyrsta deildin sem tekin verður í notkun í nýju fangelsi sem opna mun á Hólmsheiði á vormánuðum 2016. Þetta kemur fram í svari Ólafar Nordal, innanríkisráðherra, við fyrirspurn Bjarkeyjar Olsen, þingmanns Vinstri grænna, um fangelsismál kvenna.

Af þeim fjörutíu konum sem bíða eftir að hefja afplánun hafa sex ekki verið boðaðar með formlegum hætti. Fimm eru í boðun í annað sinn þar sem þær hafa rofið skilyrði samfélagsþjónustu og þá hafa fimm konur ýmist fengið samþykki fyrir því að afplána refsingu í samfélagsþjónustu eða eru með virka umsókn þess efnis.

Í svari ráðherra kemur fram að þær konur sem hófu afplánun á síðastliðnum tveimur árum þurftu að bíða að meðaltali í 10 mánuði frá því að dómur féll og þar til afplánun hófst.

Á síðustu tveimur árum hafa 67 konur hlotið óskilorðsbundna dóma. Af þeim hefur 13 verið synjað um að gegna samfélagsþjónustu.


Tengdar fréttir

470 fangar bíða afplánunar á Íslandi í dag

Listi þeirra sem bíða afplánunar dóma sinna hefur lengst ár frá ári síðan árið 2008. Nýtt fangelsi á Hólmsheiði mun hefja rekstur á næsta ári og er þar pláss fyrir 56 fanga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×