Menning

Fyrsta bókin strax seld til 25 landa

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
"Sem höfundur kvikmyndahandrita hef ég auðvitað oft látið mig dreyma um Hollywood. Þess vegna var það margföld ánægja fyrir mig þegar Hollywood hafði samband við mig að fyrra bragði,“ segir Fredrik T. Olsson um tölvupóstinn frá Warner Brothers.
"Sem höfundur kvikmyndahandrita hef ég auðvitað oft látið mig dreyma um Hollywood. Þess vegna var það margföld ánægja fyrir mig þegar Hollywood hafði samband við mig að fyrra bragði,“ segir Fredrik T. Olsson um tölvupóstinn frá Warner Brothers. Mynd/Wahlström&Widstrand
Fredrik T. Olsson hefur starfað sem höfundur að kvikmyndahandritum og sjónvarpsþáttum síðustu átján ár og hefur skrifað bæði spennu- og gamanþætti auk þess að vera uppistandari í Svíþjóð.

En Síðasti hlekkurinn er hans frumraun í skáldsagnaskrifum. Hún hefur rokselst og því sendi ég kappanum nokkrar spurningar sem hann svaraði um hæl.

Þar sem Síðasti hlekkurinn er þín fyrsta bók vaknar spurningin: Hefurðu skrifað mikið fyrir skúffuna fram að þessu?

„Eiginlega ekki – og ég er næstum með slæma samvisku þar sem fólk skrifar venjulega og skrifar og berst við að fá eitthvað útgefið árum saman áður en það tekst. En þetta var mín fyrsta tilraun og meðan ég skrifaði vissi ég ekkert (vonaði auðvitað – en vissi ekki) hvort hún yrði gefin út.



Að vissu leyti er svarið líka já. Ég hef skrifað mikið gegnum tíðina þótt það hafi verið í formi handrita fyrir sjónvarp og kvikmyndir. Svo segja má að ég hafi æft mig og þroskað og yddað minn stíl og að sú kunnátta hafi komið mér til góða við gerð bókarinnar.

Ég hef bara verið svo heppinn að skrif mín hafa ekki hafnað í skúffunni heldur verið send í sjónvarpið.“

Geturðu lýst útgáfuferlinu?

„Svíþjóð var fyrsta landið sem bókin kom út í en Finnland númer tvö, mánuði seinna.

Þegar bókin hafnaði á bókamessunni í London 2013 var hún fullskrifuð og samningur um útgáfu hennar hjá sænska forlaginu mínu, Wahlström & Widstrand, var frágenginn.

En á messunni seldist hún til fjölda landa. Mörg forlög hafa fólk sem kann sænsku í sinni þjónustu. Svo höfðum við látið þýða fyrstu hundrað síðurnar á ensku og þeir sem heilluðust fengu sænskumælandi lesara til að ljúka við hana og dæma.

Meðan við lögðum svo lokahönd á sænsku útgáfuna, kápu, prentun og kynningu var hún þýdd erlendis, meðal annars á Íslandi.

Á þessu ári kemur hún út, að mér skilst, í átta löndum fyrir utan Svíþjóð. Hún er þegar komin út í Finnlandi, Bretlandi, á Ítalíu og Íslandi og í haust bætast Danmörk, Þýskaland, Bandaríkin og Tyrkland við.

Samtals er hún seld til 25 landa, sem mér finnst svo æðislegt að ég veit ekki hvað ég á af mér að gera!“

Ertu ánægður með dómana?

„Já, virkilega. Frá því að hafa setið við skrifborðið og ekkert vitað hvort ég væri bara að skrifa fyrir sjálfan mig og til þess að fá svona ótrúleg viðbrögð er hreint ævintýri fyrir mig.“

Hvernig komst Warner Brothers á slóð þína?

„Það er óráðin gáta. Ég og útgefendur mínir urðum mjög hissa þegar fyrirtækið hafði samband. Ég sat seint um kvöld í sumarbústaðnum og kepptist við að ljúka þætti í sjónvarpsseríu þegar allt í einu poppaði upp tölvupóstur frá Warner Brothers. Það tók mig góða stund að átta mig á að þetta væri ekki hrekkur frá einhverjum. En trúlega hefur einhver af erlendu útgefendunum haft samband við Warner Brothers og sagt frá bókinni. Svo gekk allt upp.

Sem handritshöfundur kvikmynda hef ég auðvitað oft látið mig dreyma um Hollywood. Þess vegna var það margföld ánægja fyrir mig þegar Hollywood hafði samband að fyrra bragði.“

Fredrik kveðst hafa fæðst í hauststormunum 1969 og alist upp rétt fyrir utan Gautaborg. En hvað las hann í uppvextinum?

„Allt. En spennandi varð það að vera og helst svolítið flókið.

Ef ég á að velja eitthvað sem hefur mótað mig sem persónu þá er það Tinni. Það skipti engu máli hversu oft ég las Tinnabækurnar mínar, þær hættu aldrei að vera spennandi og áhugaverðar og vekja hjá mér furðu.

Hvort það var Tinni sem vakti áhuga minn á sögum, eða hitt að ég dýrkaði Tinna af því að ég elskaði sögur, veit ég ekki.

En enn, sem fullorðinn maður, á ég erfitt með að heimsækja nýtt land án þess að langa að kaupa Tinnabók á tungumáli þess.“

Skrifaðir þú mikið sem barn?



Foreldrar mínir hafa sagt mér nýlega að sem strákpjakkur hafi ég oft sagt að ég ætlaði að verða rithöfundur þegar ég yrði stór. Ég virðist bara hafa gleymt því í þrjátíu, fjörutíu ár!

En ég óskaði mér ritvélar í afmælisgjöf þegar ég var tíu ára og sat síðan heilu tímana framan við mína hvítu Olympia Traveller deLuxe og skrifaði smásögur og texta.

Ég gladdist líka í hvert skipti sem ég fékk að skrifa ritgerð í skólanum. Meðan bekkjarfélagarnir stundu og fannst þetta erfiðast af öllu sat ég og spann upp sögur sem uxu svo mikið að mér tókst aldrei að ljúka þeim áður en tíminn var búinn.“



Hefur einhver rithöfundur haft áhrif á þig?



„Ég fæ oft þá spurningu hvort ég eigi mér fyrirmynd en satt að segja á ég engan uppáhalds rithöfund. En ég hreinlega dýrka sögur sem fanga mig, fá mig til að gleyma öllu öðru um stund og lifa mig inn í veröldina sem þær lýsa.“



Hvernig kom hugmyndin að Síðasta hlekknum til þín?



„Hún bara kom og ég hélt í byrjun að ég væri með kvikmyndahandrit. En þegar á leið varð ég viss um að myndin yrði of flókin í framkvæmd fyrir sænska framleiðendur og óttaðist að ég væri að skrifa handrit sem enginn hefði ráð á að mynda.

Svo ég ákvað að skrifa bók í staðinn, hafði það bara sem hobbí og skrifaði sjónvarpsseríur á daginn. Það var fyrst þegar góður vinur minn fékk að lesa fjórðapart af sögunni og næstum þvingaði mig til að koma henni til forlags sem allt fór af stað.“



Ertu vinsæll uppistandari í Svíþjóð?

„Ef þú hefðir spurt mig fyrir 25 árum hvað ég byggist við að gera í dag hefði ég skotið á leikarann. Ég byrjaði snemma í skólaleikritum og fyndnum sketsum í veislum. Um tvítugsaldurinn fór ég til Stokkhólms í leiklistarnám í þeirri trú að ég yrði leikari og vann fyrir mér með handritsskrifum.

Löngun til að fá bein viðbrögð frá áhorfendum og njóta þess að fá þá til að hlæja blundar enn í mér. En uppistandið er alger hliðargrein hjá mér og þó ég hafi gaman af því vantar mig hreinlega oft tíma í sólarhringinn til að sinna því. Svo ég tek bara stuttar skorpur þegar löngunin til að fara upp á svið og skemmta mér með gestum lætur mig ekki í friði.



Að lokum – ertu byrjaður á annarri bók?

„Jamm. Ég er byrjaður að fylgja eftir fyrstu bókinni en er stutt á veg kominn og vil ekki segja of mikið. Nema hvað sagan gerist á undan Síðasta hlekknum.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×