Innlent

Fyrsta alþjóðlega vottaða lyflækninganámið hér á landi

Snærós Sindradóttir skrifar
Hlíf Steingrímsdóttir
Hlíf Steingrímsdóttir
Landspítalinn hefur hafið samstarf við virtan breska stofnun, Royal College of Physicians, um að framhaldsnám í lyflækningum verði kennt við spítalann. Um er að ræða þriggja ára grunnnám að lyflækningum sem byggir á skipulagi og marklýsingu bresku stofnunarinnar.

Fyrir tveimur árum síðar var ófremdarástand á lyflækningasviði Landspítalans. Nýjir læknar fengust ekki til starfa og mikið álag var á sérfræðilæknum og hjúkrunarfræðingum. „Með mjög samstilltu átaki lyflækna, ráðuneytis, ráðherra og yfirstjórnar spítalans tókst að snúa þessari þróun við,“ segir Hlíf Steingrímsdóttir, framkvæmdastjóri lyflækningasviðs Landspítalans.

Í gær hófu 36 læknar nám við lyflækningar í kjölfar nýja samstarfsins. „Þetta eru merkileg tímamót. Við sjáum það meðal annars í því að við auglýstum stöðu námslækna og það sóttu fleiri um en við gátum ráðið.“

Hlíf segir mikilvægt að spítalinn geti boðið upp á vel upp byggt nám svo það sé eftirsótt að fara í framhaldsnám hér á landi í stað þess að fara í nám erlendis strax að loknu kandidatsári.

„Þetta opnar líka möguleika fyrir íslenska lækna. Þegar þeir hafa lokið þessu námi taka þeir svokölluð MRCP próf að breskri fyrirmynd. Þau próf veita þeim alþjóðlega nafnbót sem opnar leiðir og tækifæri fyrir íslenska lækna að komast að virtum stöðum erlendis.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×