Lífið

Fyrst og fremst jarðarbúi

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Að ganga úti í náttúrunni, prjóna, synda, elda og baka er eftirlæti Erlu Bjarkar.
Að ganga úti í náttúrunni, prjóna, synda, elda og baka er eftirlæti Erlu Bjarkar.
„Það fá ekki allir að verða fimmtugir svo ég er full þakklætis,“ segir Erla Björk Örnólfsdóttir,“ rektor háskólans á Hólum, og er ósköp róleg yfir stórafmælinu í dag. „Ég held kannski einhvern tíma upp á það, er með litla og hófstillta hugmynd í bígerð en það mun taka tíma að láta verða af henni.“

Erla Björk er á ferðinni í Borgarfirði þar sem hún er fædd og uppalin. „Ég er Borgfirðingur en fyrst og fremst er ég þó jarðarbúi,“ segir hún.

Rektorsstarfið á Hólum hefur verið í höndum Erlu Bjarkar síðan 2012 en hvernig ver hún frístundunum?

„Skemmtilegast finnst mér að labba þar sem það er svolítið á fótinn og njóta náttúrunnar hvort sem hún er íslensk eða annars staðar. Geri samt ekki nógu mikið af því en hundurinn sér um að ég viðri mig. Svo finnst mér gaman að prjóna, synda, elda og baka en hvort ég sé góður kokkur verður þú að spyrja aðra um.“

Engan kveðst hún eiga makann svo ekki get ég spurt hann! En verður hún ekki að eiga hest fyrst hún býr í Skagafirði? „Nei, ég á ekki hest sjálf en hef ofboðslega gaman af að fara á hestbak, þá mér er boðið,“ segir hún og kveðst hafa notið þess í botn að vera á landsmótinu á Hólum um daginn, horfa á fallega hesta og eiga samveru með sínu fólki.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×