Fótbolti

Fyrrverandi vonarstjarna Liverpool skorar lygilegt mark

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Stuðningsmenn Liverpool muna eflaust eftir Ungverjanum Krisztián Németh sem átti að vera ein af vonarstjörnum liðsins þegar hann gekk í raðir Liverpool árið 2007.

Hann var á mála hjá félaginu í þrjú ár en spilaði ekki leik og fór til Olympiacos 2010. Þaðan fór hann á láni til MTK Búdapest og RKC Waalwijk áður en hann entist í tvö ár sem fastamaður hjá Roda JC.

Németh var fenginn til bandaríska liðsins Sporting Kansas City í byrjun ársins og spilar með því í MLS-deildinni. Hann finnur sig vel í Bandaríkjunum og var kjörinn leikmaður mánaðarins í MLS-deildinni í maí.

Sporting Kansas komst áfram í opna bandaríska bikarnum í gærkvöldi með því að pakka FC Dallas saman, 6-2.

Németh skoraði eitt marka liðsins og það var alveg lygilega vel gert. Ungverjinn skoraði með því að vippa snyrtilega yfir markvörð Dallas, en hann skaut með hægri fæti frá endalínunni hægra megin við markið.

Alveg afskaplega snoturt mark sem Dallas-menn gátu ekki varist. Markið má sjá eftir 1:55 í spilaranum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×