Fótbolti

Fyrrverandi samherja Alfreðs bjargað úr klóm mannræningja

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Pulido hefur skorað fjögur mörk í sex landsleikjum fyrir Mexíkó.
Pulido hefur skorað fjögur mörk í sex landsleikjum fyrir Mexíkó. vísir/getty
Alan Pulido, framherji Olympiakos og mexíkóska landsliðsins, er kominn í leitirnar en honum var rænt á laugardagskvöldið.

Sex grímuklæddir og vopnaðir menn rændu Pulido þegar hann var á leið heim úr gleðskap í borginni Ciudad Victoria í Tamaulipas ásamt kærustu sinni. Mannræningjarnir tóku Pulido með sér en hentu kærustu hans út úr bíl sínum skömmu síðar.

Mannrán eru afar tíð í Tamaulipas-ríkinu en yfirvöld segja að um 1000 manns sé rænt þar á ári hverju. Sumir vilja þó halda því fram að talan sé miklu hærri.

Sem betur fer er búið að finna hinn 25 ára gamla Pulido en hann ræddi stuttlega við fjölmiðla fyrir utan sjúkrahús í Ciudad Victoria í dag.

„Ég þakka guði fyrir að ég sé heill á húfi,“ sagði Pulido en engar nánari upplýsingar fengust um mannránið.

Pulido gekk til liðs við Olympiakos sumarið 2015 og lék með landsliðsmanninum Alfreð Finnbogasyni fyrri hluta síðasta tímabils. Pulido skoraði sex mörk í 13 leikjum fyrir Olympiakos á tímabilinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×