Innlent

Fyrrverandi ráðherra sakar lögreglu um fáheyrða óskammfeilni

Heimir Már Pétursson skrifar
Yfirlögregluþjónn hjá Ríkislögreglustjóra segir að brýnt hafi verið að fá nýjar hríðskotabyssur og vísar til skýrslu fyrrverandi innanríkisráðherra. Hann segir um fáheyrðan útúrsnúning að ræða.
Yfirlögregluþjónn hjá Ríkislögreglustjóra segir að brýnt hafi verið að fá nýjar hríðskotabyssur og vísar til skýrslu fyrrverandi innanríkisráðherra. Hann segir um fáheyrðan útúrsnúning að ræða. vísir
Yfirlögregluþjónn hjá Ríkislögreglustjóra segir brýnt að lögregla hafi aðgang að hríðskotabyssum eins og norska lögreglan hefur gefið þeirri íslensku og vísar til  skýrslu innanríkisráðherra fyrir tveimur árum. Fyrrverandi ráðherra segir þessi svör lögreglunnar vera fáheyrðan útúrsnúning.

Jón F. Bjartmarz yfirlögregluþjónn hjá Ríkislögreglustjóra segir lögregluna alla tíð hafa haft aðgang að vopnum, sem alla jafna hafi verið geymd í læstum hirslum á lögeglustöðvum. Þær hríðskotabyssur sem lögreglan átti hafi hins vegar verið komnar til ára sinna, eða allt frá fyrri heimsstyröld, og verið aflagðar fyrir nokkrum árum.

Þegar Norska lögreglan hafi boðist til að gefa íslensku lögreglunni nýtísku vopn vegna endurnýjunar hjá sér,  hafi því ekki verið slegið hendinni á móti því. En Kjarninn fullyrðir reyndar í dag að byssurnar séu komnar frá norska hernum, ekki norsku lögreglunni.

„Það var brýn þörf að lögreglan hefði slík vopn. Það er rétt að taka það fram að slík vopn eru miklu öruggari í notkun en skammbyssurnar. Þetta er með góðum miðunarbúnaði og er um langvopn að ræða þótt þetta sé í raun og veru skammbyssa. Það eru í raun sömu kúlugerð í þessum vopnum og skammbyssunum. Þannig að við teljum þetta geta í raun og veru má segja þá bætt stöðu lögreglunnar til að takast á við erfið mál,“ segir yfirlögregluþjónninn.

Jón vísar til skýrslu Ögmundar Jónassonar þáverandi innanríkisráðherra til Alþingis árið 2012.

„Þá var niðurstaðan í þeirri skýrslu að viðbúnaður lögreglu til að takast á við hryðjuverk, vopnamál og annað slíkt; og vegna öryggis ríkisins væri algerlega óviðunandi. Og í skýrslu sem Ögmundur skipaði til að vinna að gerð löggæsluáætlunar var lögð höfuðáhersla á að eitt af þeim atriðum var að efla þjálfun og búnað lögreglumanna,“ segir Jón.

Ögmundur Jónasson er langt í frá sáttur við þessar skýringar yfirlögregluþjónsins.

„Þetta er náttúrlega hreinn útúrsnúningur og fáheyrð óskammfleini. Hér er verið að vísa í skýrslu sem að hluta til byggir á upplýsingum sem komnar eru frá lögreglu um búnað hennar og mikilvægi þess að bæta aðstöðu lögreglunnar. Þarna er hvergi vikið að vopnakaupum á nokkurn hátt. Og fara að kenna þessa ráðstöfun, þessi kaup, við þetta plagg er algerlega út í hött,“ segir Ögmundur Jónasson fyrrverandi innanríkisráðherra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×