Fótbolti

Fyrrverandi leikmaður Bayern: Guardiola mistókst hjá félaginu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Guardiola tókst ekki að stýra Bayern til sigurs í Meistaradeildinni.
Guardiola tókst ekki að stýra Bayern til sigurs í Meistaradeildinni. vísir/getty
Pep Guardiola mistókst ætlunarverk sitt hjá Bayern München. Þetta segir Króatinn Ivica Olic, fyrrverandi framherji félagsins.

Bayern féll úr leik í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu þriðja árið í röð þrátt fyrir 2-1 sigur á Atlético Madrid á þriðjudaginn. Spænska liðið vann fyrri leikinn 1-0 og fór áfram á marki skoruðu á útivelli.

„Guardiola hefur fallið úr leik í Meistaradeildinni þrjú ár í röð og á mælikvarða Bayern er það óviðunandi,“ sagði Olic sem lék með Bayern á árunum 2009-12.

„Fólk hjá Bayern mun eflaust segja að hann hafi unnið fullt af titlum heima fyrir en miðað við mannskapinn sem hann er með er það nánast formsatriði,“ sagði Olic ennfremur.

Bayern er með fimm stiga forskot á Borussia Dortmund þegar tveimur umferðum er ólokið í þýsku úrvalsdeildinni. Með sigri á Ingolstadt á morgun tryggir Bayern sér þýska meistaratitilinn fjórða árið í röð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×