Viðskipti innlent

Fyrrverandi forstjóri Straums tapaði skattamáli gegn ríkinu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Héraðsdómur sýknaði íslenska ríkið af kröfum Þórðar Más.
Héraðsdómur sýknaði íslenska ríkið af kröfum Þórðar Más. vísir/valli
Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði í dag íslenska ríkið af kröfum Þórðar Más Jóhannessonar, fyrrverandi forstjóra Straums, um að tekjuskatts-og útsvarsstofn hans fyrir árið 2007 yrði lækkaður um tæpar 600 milljónir króna.

Ríkisskattstjóri hafði árið 2012 úrskurðað að hagnaður Þórðar af sölu hlutabréfa í Straumi væru launatekjur og því ætti að greiða skatt af honum í samræmi við það en ekki fjármagnstekjuskatt. Fram kemur í dómnum að hagnaðurinn var um 1,2 milljarðar króna.

Úrskurðaði ríkisskattstjóri að Þórður skyldi greiða tæpan milljarð í skatt vegna hagnaðarins en yfirskattanefnd lækkaði þá upphæð um rúmar 300 milljónir árið 2013.

Þórður fór fram á ómerkingu úrskurðar yfirskattanefndar en ríkið fór fram á það yrði sýknað af kröfum hans. Á það féllst héraðsdómur sem telur að yfirskattanefnd hafi réttilega úrskurðað að hagnaður af sölu hlutabréfanna hafi verið skattskyld hlunnindi. Þá var Þórður dæmdur til að greiða 900.000 krónur í málskostnað.

Dóminn í heild sinni má lesa hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×