Innlent

Fyrrverandi aðstoðarmaður Bjarna nú starfsmaður kröfuhafa Kaupþings

Heimir Már Pétursson skrifar
Bjarni Benediktsson er formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra.
Bjarni Benediktsson er formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra. vísir/ernir
Þingmaður Samfylkingarinnar lýsti áhyggjum af því á Alþingi í morgun að einn helsti sérfræðingur fyrrverandi ríkisstjórnar við losun gjaldeyrishafta starfaði nú hjá kröfuhöfum Kaupþings. Þar hefði hann væntanlega haft aðgang að trúnaðarupplýsingum um markmið stjórnvalda í samskiptum við kröfuhafana.

Oddný G. Harðardóttir þingmaður Samfylkingarinnar vakti athygli á því í fyrirspurnartíma á Alþingi í morgun að Benedikt Gíslason fyrrverandi aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar í fjármálaráðuneytinu starfaði nú fyrir kröfuhafa Kaupþings. Hann hafi verið einn helst ráðgjafi síðustu ríkisstjórnar um losun gjaldeyrishafta.

„Eitt af því sem fóls í vinnu Benedikts var að koma að gerð stöugleikaskilyrða. Reglna um hvernig kröfuhafar föllnu bankanna geta farið með hundruð milljarða króna eignir sínar frá Íslandi. Benedikt vinnur nú fyrir kröfuhafa Kaupþings sem eru stærstu eigendur Arion banka og er því nú að starfa fyrir þá aðila sem stöðugleikaskilyrðin voru sniðin að,“ sagði Oddný.

Oddný Harðardóttir.vísir/Anton
Benedikt lét af ráðgjafastörfum hjá fjármálaráðuneytinu í júní og tók til starfa hjá kröfuhöfunum í september í fyrra.

„Benedikt er bundinn trúnaði við Kaupþing en er hann bundinn trúnaði um þá vitneskju sem hann aflaði sér sem ráðgjafi og aðstoðarmaður fjármála- og efnahagsráðherra? Ég spyr hæstvirtan forsætisráðherra um það og við hvern ráðnigarsamband Benedikts var þegar hann vann sem ráðgjafi fyrir ríkisstjórnina í verkefnum tengdum losun hafta,“ sagði Oddný.

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra sagði alla sem komið hefðu að þessari vinnu hafi undirritað sérstaka trúnaðarsamninga.

„Ég hef nú ekki skoðað þessa samninga nýlega en mig rekur ekki minni til þess að að þar sé kveðið á um að það sé einhverjar takmarkanir á því hvað menn geti farið að fást við eftir að eftir að samningssambandinu lýkur,“ sagði Bjarni.

En það skipti mestu máli að þessari vinnu hafi verið lokið og allir skilmálar settir og vinnan skilað árangri. Niðurstaðan hafi meðal annars verið að Kaupþing gaf út 83 milljarða skuldabréf á ríkissjóð með skilmálum sem liggi ljósir fyrir.

„Samkvæmt Fréttatímanum vill Benedikt ekki svara þeirri spurningu með hvaða hætti honum var boðið ráðgjafastarfið hjá Kaupþingi. En eðlilegt er að upp vakni spurningar um hvort það hafi gerst vegna og í gegnum vinnu hans fyrir fjármála- og efnahagsráðuneytið,“ sagði Oddný.

„Mér er ekki ljóst hverju þingmaðurinn er að velta hér upp og ég ætla ekki að láta setja mig í þá stöðu að að gerast einhver sérstakur talsmaður starfsmanns Kaupþings. Enda er engin ástæða til þess. Hins vegar situr eftir sú spurning sem háttvirtur þingmaður hefur hér dálítið í reyk, hvaða atriði eru það sem háttvirtur þingmaður hefur sérstakar áhyggjur af? Við skulum bara ræða þau sérstaklega í stað þess að ræða það með óljósum orðum eins og hér er gert,“ sagði Bjarni Benediktsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×