Enski boltinn

Fyrrum stjóri Eiðs í úrvalsdeildina?

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Enskir fjölmiðlar greina frá því að Neil Lennon, stjóri Bolton, sé ofarlega á óskalista forráðamanna Leicester sem leita sér nú að nýjum knattspyrnustjóra.

Lennon hefur stýrt Bolton og fékk Eið Smára Guðjohnsen til félagsins á síðustu leiktíð með góðum árangri. Hann tók við Bolton í október og sá til þess að liðið féll ekki um deild.

Nigel Pearson var rekinn sem stjóri Leicester á dögunum þrátt fyrir að liðið náði að bjarga sér frá falli úr ensku úrvalsdeildinni á ævintýralegan máta í vor.

Lennon spilaði með Leicester frá 1996 til 2000 og er í miklu uppáhaldi hjá stuðningsmönnum félagsins. Eftir að hann lagði skóna á hilluna þá gerðist hann stjóri Celtic og náði góðum árangri með félagið þau fjögur ár sem hann var í Glasgow.

Lennon mun vera áhugasamur um að reyna fyrir sér í ensku úrvalsdeildinni að sögn enskra fjölmiðla en fram undan er erfitt tímabil hjá Bolton sem á við fjárhagsvandræði að stríða.

Sam Allardyce hefur einnig verið orðaður við starfið í Leicester sem og Roberto Di Matteo, fyrrum stjóri Chelsea.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×