Erlent

Fyrrum samkeppnisstjóri Evrópusambandsins í nýjum skattaskjólsgögnum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Neelie Kroes, fyrrverandi samkeppnisstjóri ESB.
Neelie Kroes, fyrrverandi samkeppnisstjóri ESB. vísir/getty
Neelie Kroes sem var samkeppnisstjóri Evrópusambandsins á árunum 2004 til 2010 var skráð sem stjórnandi aflandsfélags á Bahama-eyjum frá 2000 til 2009.

Bahama-eyjar eru vinsælt skattaskjól alþjóðafyrirtækja og glæpamanna en nafn Kroes kemur fyrir í gögnum sem lekið var til Alþjóðasamtaka rannsóknarblaðamanna (ICIJ) og þýska dagblaðsins Süddeutsche Zeitung en ítarlega er fjallað um gögnin úr lekanum á vef ICIJ.

Kroes, sem er hollensk, sagði aldrei frá tengslum sínum við aflandsfélagið enda eru upplýsingarnar fyrst að koma fram núna. Sem samkeppnisstjóri ESB var það hlutverk Kroes að ferðast um Evrópu þvera og endilanga og brýna það fyrir fyrirtækjum að þau gætu ekki svikist um og sleppt því að fara að reglum ESB.

Lögmaður Kroes sendi ICIJ yfirlýsingu vegna málsins. Í henni kemur fram að hún hafi ekki greint frá tengslum sínum við aflandsfélagið þar sem það hafi aldrei haft neina starfsemi. Þá hafi nafn hennar verið í gögnum félagsins fyrir tæknileg mistök sem voru ekki leiðrétt fyrr en árið 2009.

Þá segir jafnframt í yfirlýsingu lögmanns Kroes að félagið hafi verið sett upp af jórdönskum vini skjólstæðings hennar með það fyrir augum að leggja inn í það peninga til fjárfestinga í samstarfi við bandaríska orkurisann Enron Corp. en aldrei varð af því samstarfi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×