Fótbolti

Fyrrum Liverpool-maður verður samherji Rúriks Gíslasonar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Christian Poulsen.
Christian Poulsen. Vísir/Getty
Christian Poulsen, fyrrum leikmaður Juventus og Liverpool, er á heimaleið en þessi 34 ára miðjumaður hefur spilað með hollenska liðinu Ajax að undanförnu.

Poulsen á að baki tólf ára feril sem atvinnumaður í fótbolta en hann hefur ákveðið að ganga til liðs við FC Kaupmannahöfn og verður kynntur til leiks á blaðamannafundi í dag.  

Poulsen er 34 ára og lék 92 landsleiki fyrir Dani en lagði landsliðsskóna á hilluna fyrir tveimur árum. Hann var valinn knattspyrnumaður ársins í Danmörku 2005 og 2006.

Poulsen hefur spilað með sex liðum í jafnmörgum löndum og var síðast á mála hjá Ajax í Hollandi þar sem hann varð tvisvar sinnum meistari. Hollenska liðið framlengdi ekki samning við hann í sumar.

Christian Poulsen lék með FC Kaupmannahöfn á árunum 2000 til 2002 og varð danskur meistari með liðinu árið 2001. Poulsen fór til þýska liðsins Schalke 04 árið 2002 en spilaði síðan með Juventus frá 2008-10 og með Liverpool frá 2010-11.

Kenny Dalglish og Christian Poulsen.Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×