Fótbolti

Fyrrum leikmaður Real Madrid og Barcelona tekur við spænska landsliðinu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Lopetegui var rekinn frá Porto í byrjun árs.
Lopetegui var rekinn frá Porto í byrjun árs. vísir/getty
Spænska knattspyrnusambandið er búið að finna eftirmann Vicentes del Bosque.

Sá heitir Julen Lopetegui en hann verður kynntur sem næsti landsliðsþjálfari Spánar í kvöld.

Lopetegui var markvörður á sínum tíma og lék einn A-landsleik fyrir Spán. Hann lék bæði með Real Madrid og Barcelona en fékk fá tækifæri hjá þessum stórliðum.

Lopetegui var síðast við stjórnvölinn hjá Porto en hann var rekinn þaðan í byrjun árs.

Á árunum 2010-14 þjálfari Lopetegui yngri landslið Spánar og náði góðum árangri. Undir hans stjórn urðu bæði U-19 ára og U-21 árs liðin Evrópumeistarar.

Í U-21 ára liðinu sem varð Evrópumeistari 2013 voru margir leikmenn sem eru nú í spænska A-landsliðinu. Má þar nefna leikmenn á borð við David de Gea, Álvaro Morata, Thiago og Koke.

Spánn féll úr leik fyrir Ítalíu í 16-liða úrslitum á EM í Frakklandi. Eftir mótið ákvað Del Bosque svo að draga sig í hlé eftir að hafa þjálfað spænska landsliðið í átta ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×