Sport

Fyrrum hlaupari Jets og Chiefs myrtur

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
McKnight í búningi Jets.
McKnight í búningi Jets. vísir/getty
Joe McKnight, fyrrum hlaupari NY Jets og Kansas City Chiefs, var myrtur í gær. Hann var aðeins 28 ára gamall.

McKnight var myrtur rétt utan við New Orleans. Svo virðist vera sem vegareiði sé ástæðan fyrir morðinu. McKnight lenti í einhverjum átökum við mann í bílnum sínum sem síðan endaði með því að hann var skotinn til bana.







Hinn 54 ára gamli Ronald Gasser hefur verið handtekinn grunaður um morðið. Hann beið eftir lögreglu á morðstaðnum og lét lögregluna fá byssuna er hún mætti á vettvang. Hann hefur viðurkennt verknaðinn. McKnight var ekki með neitt vopn.

McKnight var fæddur í úthverfi New Orleans og var besti hlauparinn í framhaldsskólaboltanum er hann ákvað að semja við USC.

Hann spilaði í þrjú ár hjá USC þar sem Pete Carroll, núverandi þjálfari Seattle Seahawks, var þjálfarinn hans.







McKnight fór svo til New York Jets en hann var valinn í fjórðu umferð nýliðavalsins. Hann spilaði með Jets til 2012.

Hann var ekkert með leiktíðina 2013 út af alls konar vandræðum. McKnight samdi svo við Kansas City Chiefs fyrir leiktíðina 2014 en hætti svo vegna meiðsla. Það var hans síðasta leiktíð í NFL-deildinni. Í ár hefur hann verið að spila í kanadísku deildinni.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×