Innlent

Fyrirspurnaflóð yngsta þingmannsins á lokadögum þingsins

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Yngsti kjörni þingmaðurinn í sögu íslenska lýðveldisins kveðjur stjórnmálin eftir komandi kosningar.
Yngsti kjörni þingmaðurinn í sögu íslenska lýðveldisins kveðjur stjórnmálin eftir komandi kosningar. Vísir/GVA
Yngsti kjörni þingmaður Íslandssögunnar, Jóhanna María Sigmundsdóttir, situr ekki auðum höndum síðustu daga sína sem þingmaður. Í dag lagði hún fram átta fyrirspurnir til hinna ýmsu ráðherra.

Jóhanna María, sem hefur gefið út að hún sækist ekki eftir endurkjöri, beindi flestum fyrirspurnum til innanríkisráðherra. Í fyrsta lagi spurði hún um hvenær er ráðgert að rannsóknir og undirbúningur hefjist fyrir jarðgöng milli Álftafjarðar og Skutulsfjarðar. Í öðru lagi fýsir hana að vita hvernig innheimtu hraðasekta bílaleigubíla er háttað og hve hátt hlutfall slíkra sekta innheimtist. Síðasta fyrirspurnin til innanríkisráðherra snýr að ýmsum upplýsingum um eignarhald á jörðum.

Tveimur fyrirspurnum er beint til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Önnur þeirra er hnitmiðuð en þar er aðeins spurt hver skilgreiningin sé á verksmiðjubúi. Hin snýr að hvaða kröfur séu gerðar til innfluttra landbúnaðarafurða og innlendra, allt frá ummönnum og aðbúnaði dýra til framleiðsluferlis afurða.

Fjármála- og efnahagsráðherra, iðnaðar- og viðskiptaráðherra og utanríkisráðherra fá síðan hver eina fyrirspurn. Í hlut fjármálaráðherra fellur fyrirspurn um álagningu bifreiðagjalds á lanbúnaðarvélar og utanríkisráðherra bíður fyrirspurn um íslenska ríkisborgara í erlendum fangelsum. Að endingu var iðnaðar- og viðskiptaráðherra spurður um þriggja fasa rafmagn í dreifbýli og ljósleiðaravæðingu landsbyggðarinnar í átta töluliðum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×