Sport

Fyrirliðinn sem hneig niður skömmu fyrir leik er enn í lífshættu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Craig Cunningham.
Craig Cunningham. Vísir/Getty
Craig Cunningham, fyrirliði bandaríska íshokkíliðsins Tucson Roadrunners og fyrrum leikmaður í NHL-deildinni, liggur nú á spítala og berst fyrir lífi sínu.

Hinn 26 ára gamli Cunningham var að gera sig tilbúinn fyrir leik Tucson Roadrunners í amerísku íshokkídeildinni á dögunum þegar hann hneig skyndilega niður.

Hugað var að Craig Cunningham á ísnum áður en hann var fluttur á sjúkrahús. Leiknum var frestað í framhaldinu og Tucson Roadrunners frestaði einnig næstu tveimur leikjum liðsins.

Craig Cunningham er á samningi hjá NHL-liðinu Arizona Coyotes en hann hneig niður þegar hann að að skauta á ísnum skömmu eftir að þjóðsöngvarnir voru spilaðir.

Það er ekki orðið opinbert hvað var að angra Cunningham en þetta var alvarlegt og hann er enn í lífshættu á sjúkrahúsi í Tucson.

Bandarískir fjölmiðlar telja þó að Cunningham hafi fengið hjartaáfall en sjúkraliðar á leiknum rifu treyjuna hans og hófu hjartahnoð áður en hann var fluttur í burtu á spítala.

Kanadamaðurinn Cunningham á að baki fjögur tímabil í NHL-deildinni en hann var valinn af  Boston Bruins í nýliðavalinu 2010. Hann var búin að skora 4 mörk og gefa 9 stoðsendingar í 11 leikjum fyrir Tucson Roadrunners á þessu tímabili.

Craig CunninghamVísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×