Innlent

Fyrirkomulag við skipun í nefndir endurskoðað

Bjarki Ármannsson skrifar
Hildur Sverrisdóttir, varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.
Hildur Sverrisdóttir, varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.
Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti í dag samhljóða tillögu Sjálfstæðisflokksins um að láta endurskoða fyrirkomulagið við skipun fulltrúa í ráð og nefndir borgarinnar. Umræða um málið kom upp þegar fimm fulltrúar meirihlutans sátu hjá við skipun Gústafs Níelssonar sem varamanns Framsóknar og flugvallarvina í mannréttindaráð borgarinnar.

Gústaf var skipaður í mannréttindaráð fyrir þrátt fyrir mjög umdeildar fullyrðingar sínar um múslima og hjónavígslur samkynhneigðra. Skipunin var á endanum dregin til baka en fimm borgarfulltrúar, þeirra á meðal Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, sátu hjá í mótmælaskyni.

Sjá einnig: Situr hjá vegna „öfgastefnu“ Framsóknar

„Umræðan fór þá svolítið að snúast um afstöðu annarra flokka, af hverju einhverjir hefðu kosið með og aðrir sátu hjá og svo framvegis,“ segir Hildur Sverrisdóttir, varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins. Hildur talaði fyrir tillögunni í dag en hún var ein þeirra sem gagnrýndi á sínum tíma borgarfulltrúana sem sátu hjá við skipun Gústafs. 

„Ég tel það með öllu ólýðræðislegt að það sé verið að bjóða heim slíkum „popúlisma“ í ákvörðunum sem eiga alfarið að vera á ábyrgð viðkomandi flokka,“ segir Hildur. „Það er að sjálfsögðu flokkanna sjálfra að stýra því, þó ekki væri nema einungis fyrir þann öryggisventil sem er pólitísk ábyrgð gagnvart kjósendum.“

Sjá einnig: Gréta Björg kjörin varamaður í stað Gústafs

Tillagan felur í sér að forsætisnefnd verði falið að skoða hvaða leiðir séu tækar við skipun í ráð og nefndir borgarinnar „aðrar en huglæg afstaða borgarfulltrúa til þeirra einstaklinga sem lagðir eru til.“ Hildur segist treysta lögfræðingum Reykjavíkurborgar til að skoða hvort hægt sé að gera ferlið einfaldara og skilvirkara.

„Ég býst við að eitthvað muni koma út úr því en ég fagna því allavega að það var vilji til að stíga þetta fyrsta skref,“ segir hún.


Tengdar fréttir

Ræddi skipan Gústafs við borgarfulltrúa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, hitti fulltrúar Framsóknar og flugvallarvina á fundi í morgun.

Situr hjá vegna „öfgastefnu“ Framsóknar

Formaður borgarráðs gagnrýndi fulltrúa Framsóknar- og flugvallarvina harðlega og ætlar að sitja hjá í atkvæðagreiðslu um skipan varamanns í mannréttindaráð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×