Lífið

Furðulegasti herforingi sögunnar

Illugi Jökulsson skrifar
Jóhanna af Örk er ekki bara helsta þjóðhetja Frakka, hún er líka dýrlingur kaþólsku kirkjunnar. Það þýðir að kaþólskir menn eiga að líta svo á að hún sé í sérstöku sambandi við guð sakir guðhræðslu sinnar og kærleikans.
Jóhanna af Örk er ekki bara helsta þjóðhetja Frakka, hún er líka dýrlingur kaþólsku kirkjunnar. Það þýðir að kaþólskir menn eiga að líta svo á að hún sé í sérstöku sambandi við guð sakir guðhræðslu sinnar og kærleikans.

Fyrir mitt leyti segi ég ykkur hreinskilnislega að ef ég væri ekki bundin yfir stríðinu við Englendinga þá hefði ég fyrir löngu haldið á ykkar fund, en ef ég kemst að því að þið hafið ekki bætt ráð ykkar, þá gæti farið svo að ég hætti að berjast við Englendinga og haldi gegn ykkur, svo að með sverðinu – ef ekki með öðrum ráðum – geti ég upprætt falska og illa hjátrú ykkar, og svipt ykkur annaðhvort villutrúnni eða lífinu.“

Sá sem hér mælir er franskur herforingi. Bréfið er skrifað árið 1430 og ég myndi reyna að leyna því enn um sinn fyrir lesendum hver herforinginn var, byggja hægt og hægt upp spennu og svipta svo hulunni af því þegar hæst bæri – ef myndin hér til hliðar kæmi ekki á andartaki upp um allt saman. Þetta var Jóhanna af Örk, sem kölluð var, og þegar hún skrifaði svo digurbarkalega til leiðtoga mótmælendatrúflokks Hússíta í Bæheimi eða Tékklandi, þá var hún átján ára gömul.

Hundrað ára stríðið

Jóhanna þessi ber sannarlega með heiðri og sóma nafnbótina óvenjulegasti herforingi sögunnar, og frægur þáttur hennar í hundrað ára stríðinu við Englendinga hefur fært hennar ævarandi samastað í hjörtum Frakka. Stundum er talað um að hún hafi bjargað Frakklandi, en það er eflaust töluvert ofmælt en á örlagaríku augnabliki í hinu langvinna stríði skiptu eldmóður hennar og sannfæring vissulega verulegu máli.

Hundrað ára stríðið snerist um hvort Englendingar fengju halda víðáttumiklum lendum sínum í Frakklandi og jafnvel einhvers konar herrar landsins, eða hvort þeir yrðu reknir öfugir út í sjó og upp á sína þokuslungnu eyju. Hirði ég nú ekki um að rekja gang þess stríðs framar en árið 1429 horfði mjög illa fyrir Frökkum.

Franski kóngurinn Karl VII var á hálfgerðum hrakhólum um leifarnar af ríki sínu og komst ekki einu sinni að láta krýnast formlega, því bandamenn Englendinga héldu borginni Rheims þar sem Frakkakóngar höfðu verið krýndir frá fornu fari. Og meðan höfuð Karls hafði ekki verið smurt og krýnt á réttan hátt, þá gat hann vart talist sannur konungur.

Menn höfðu formsatriðin á hreinu á fimmtándu öld ekki síður en nú á dögum. En engar líkur virtust á að Karl kæmist til Rheims. Þá kom til sögunnar Jóhanna af Örk, sautján ára sveitastúlka af fátæku bændafólki.

Englar guðs

Frá tólf ára aldri hafði hún séð sýnir, hún kvaðst sjá engla drottins og sýnirnar voru svo fagrar að hún grét þegar þær gufuðu upp. Í byrjun höfðu englarnir svo sem ekki margt óvenjulegt fram að færa, þeir brýndu bara fyrir henni að vera þæg og góð og hlýðin foreldrum sínum. En nú breyttust sýnirnar.

Fréttir höfðu borist um að Englendingar hefðu sest um borgina Orléans í miðju Frakklandi og ef þeir næðu henni myndu þeir vera í yfirburðastöðu í stríðinu. Englar guðs fylgdu bersýnilega Frökkum að málum í stríði þessu og höfðu nú sest á rökstóla um hvað gæti bjargað Frakklandi. Og haukfrán augu þeirra höfðu staðnæmst við guðhræddu og góðu sautján ára stúlkuna í sveitaþorpinu.

Hún væri rétta manneskjan til að sigra vígvél enskra, sögðu englarnir hver við annan, og svo var fulltrúi þeirra sendur á fund hennar og birtist henni sem fögur sýn á himni, og engillinn sagði henni að hlutverk hennar í lífinu væri að hrinda umsátri Englendinga um Orléans og leiða síðan Karl VII til krýningar í Rheims.

Og Jóhanna sannfærðist um að þetta væri vissulega hennar hlutverk og hófst þegar handa. Hún gerði sér reyndar vel grein fyrir því sjálf að þetta var fáránleg hugmynd. Hún var ekki bara kona í niðurnjörvuðu feðraveldinu, ekki bara táningur á tíð þegar ekki var hlustað á unga fólkið, hún var líka alþýðustelpa á tímum hins hátimbraða lénsskipulags þegar bændafólk hafði nánast stöðu ánauðugra þræla. Og hún hafði auðvitað aldrei svo mikið sem lyft sverði, svo vitnað sé í Söguna alla 2008.

Leyndarmál konungs

En ótrúlegt nokk tókst Jóhönnu að telja öðrum trú um að guð hefði vissulega ætlað henni hlutverk í stríðinu. Hún var ekki ofsatrúarmanneskja af þeirri gerð sem froðufellir og veltist um og æpir. Þvert á móti var hún kurteis og hæglát í framkomu. En hún talaði af algjörri sannfæringu og bar óhikað fram sitt furðulega erindi við hvern sem hún taldi geta hjálpað sér að komast til hirðar Frakkakóngs í bænum Chinon. Hún var ómenntuð með öllu, ef undan er skilinn sá Biblíufróðleikur sem hún hafði viðað að sér í litlu sveitakirkjunni sinni, en mál sitt flutti hún skörulega og lét engan reka sig á gat. Að lokum tókst henni að komast til Chinon. 



Karl vildi lítið á hana hlusta til að byrja með en það er sagt hafa breyst þegar hún hvíslaði að honum einhverjum þeim leyndarmálum sem enginn átti að vita nema hann. Fór þar sem fyrr, að ef guði standa tvær leiðir til boða til að opinbera vilja sinn, þá fer hann jafnan flóknari leiðina. Nema hvað nú fékk Jóhanna af Örk sæti í herráði kóngs og hvatti eindregið til að grimmilegrar árásar á umsátursliðið við Orléans. Frakkar þyrftu ekki að óttast ósigur, englarnir lofuðu sigri.

Um síðir tókst að mjaka frönsku hersveitunum úr sporunum og til að gera langa sögu stutta gekk allt eftir sem englarnir höfðu lofað. Frakkar sigruðu við Orléans og her þeirra tókst síðan að brjótast til Rheims þar sem Karl var krýndur. Og snerist nú stríðsgæfan öll Frökkum í hag.

Nokkuð er misjafnt hvaða trú menn hafa á þætti Jóhönnu. Hin gamla dýrðarsaga hermir að hún hafi ævinlega verið fremst í flokki, bæði við að skipuleggja slagsmálin og leiða þau til lykta, en aðrir telja að hún hafi fyrst og fremst verið eins konar lukkudýr Frakka enda þekktu orðið allir hermennirnir þessa kornungu einbeittu stúlku sem klæddist brynju og var girt sverði eins og þeir.

Hver sem sannleikurinn er, þá er ómótmælanlegt að eldmóður Jóhönnu átti sinn ríka þátt í að efla baráttugleði Frakka og skipti að því leyti að minnsta kosti umtalsverðu máli.

Litlar þakkir

Ekki hlaut hún miklar þakkir Frakkakóngs fyrir frumkvæði. Karl gerðist leiður á henni og vildi nú fátt af henni vita. Hún flakkaði um með svolítinn herflokk og vildi berja á fleiri Englendingum en í maí 1430 féll hún í hendur Búrgundum, sem voru bandamenn Englendinga. 

Karl kóngur hefði getað borgað fyrir hana lausnargjald en hann sinnti því engu. Búrgundarmenn seldu hana því til Englendinga sem brenndu hana á báli fyrir villutrú ári seinna, þá var hún nítján ára. Þetta gæti verið svo hrífandi saga. Hin guðhrædda stúlka sem fylgir orðum englanna og bregður sér hvorki við sár né bana svo uppfylla megi vilja guðs almáttugs á himnum. 

Enda er Jóhanna af Örk ekki bara helsta þjóðhetja Frakka, hún er líka dýrlingur kaþólsku kirkjunnar. Það þýðir að kaþólskir menn eiga að líta svo á að hún sé í sérstöku sambandi við guð sakir guðhræðslu sinnar og kærleikans. Um guðhræðsluna er engin leið að efast, en kærleikurinn er meiri spurning. Það kemur svo berlega fram í bréfinu sem ég vitnaði til í upphafi og Jóhanna skrifaði Hússítum í Bæheimi á þeim tíma þegar hún flakkaði um sveitir Frakklands með herflokkinn sinn og reyndi að finna Englendinga til að drepa. 

Harkan og einstrengingsskapurinn, grimmdin og þröngsýnin drjúpa nánast af hverju orði þessa dýrlings kaþólsku kirkjunnar. Því meiri þjáningar og refsingar Í bréfinu sagði ennfremur: „Þið eruð blindir, en ekki vegna þess að ykkur skorti augu eða sjón. Trúið þið því virkilega að ykkur verði sleppt án refsingar, eða vitið þið ekki að ástæðan fyrir því að guð stöðvar ekki ykkar ólöglegra hátterni og leyfir ykkur að halda áfram á ykkar villuráðandi stigum, hún er sú að því meira sem þið veltið ykkur í synd og sora, því meiri þjáningar og refsingar er hann að undirbúa fyrir ykkur?“

Hvað var orðið af góðu stúlkunni í sveitinni?






Fleiri fréttir

Sjá meira


×