Erlent

Furðu lostin eftir búðarferð á Íslandi

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
"Þessi íslenska þörf að menga allt með lakkrís er svo sterk að hún yfirtók hvert eitt og einasta sælgæti í augnsýn.“
"Þessi íslenska þörf að menga allt með lakkrís er svo sterk að hún yfirtók hvert eitt og einasta sælgæti í augnsýn.“
Leiðarahöfundur Vice, Hilary Pollack, furðar sig á matarvenjum Íslendinga eftir ferð hennar til Íslands.  Hún byrjar pistil sinn á að biðja Íslendinga afsökunar, Ísland sé einn fallegasti staður á jörðu, en maturinn með þeim undarlegri.

„Ég hélt, í það allra minnsta, að sælgætið væri öruggt. Sælgæti er sælgæti, ekki satt? Rangt! Svo rangt. Í ljósi þess að ég haga mér yfir höfuð eins og gráðugur krakki ákvað ég að kaupa þrjú súkkulaðistykki. Ég komst fljótt að því að allt var þetta súkkulaðihúðaður lakkrís. Þessi íslenska þörf að menga allt með lakkrís er svo sterk að hún yfirtók hvert eitt og einasta sælgæti í augnsýn,“ segir Hilary í pistli sínum sem ber yfirskriftina „Ísland ég elska þig, en matvöruverslanirnar eru skrítnar.“

Hilary hélt áfram að grennslast fyrir um það hvað hún gæti keypt í versluninni og sagðist hún gáttaðri með hverri mínútu sem leið.  Sósurnar, áleggin, safarnir. Allt þótti henni þetta stórundarlegt.

mynd/hilary pollack
„Ég rak augun í safa sem heitir Brazzi. Framan á safanum mátti sjá þrekvaxin mann sem lítur út fyrir að vera ítalskur, með örþunnt yfirvaraskegg og með buff og hlífðargleraugu á höfðinu. Við hlið hans stóð stelpa með bleika hárkollu. Ég komst þó seinna að því að þetta eru persónur úr Latabæ. Umbúðirnar voru samt alveg jafn furðulegar þrátt fyrir það.“

Henni brá heldur betur í brún þegar hún kom að frystinum, því við henni blöstu sviðahausar. Hún sagðist hafa virt þá vel og lengi fyrir sér en gat ekki gert sér grein fyrir því hvaða dýr þetta kynni að vera. Trýnið væri þess eðlis að litlar líkur væru á að höfuðið væri af kind.

mynd/hilary pollack
Þá fannst henni sæta furðu hversu mikið af mjólkurvörum var í boði. „Ég í það minnsta held þetta hafi verið mjólk. Það var til dæmis bláberjamjólk og sveskjumjólk og þar fyrir neðan var gríðarlegt magn af skyri í allskyns bragðtegundum.“

„Á endanum ákvað ég að kaupa hrískökur, skoskan ost sem kallast Sheese, pítsu og  klementínur sem síðar reyndust skemmdar. En þrátt fyrir það þurfti nánast að draga mig út úr versluninni. Það var skrítinn og dásamlega fallegur heimur þar inni,“ segir Hilary að lokum, alsæl með bæði búðarferðina og Íslandsferðina yfir höfuð. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×