Innlent

Furðar sig á því að enginn hafi kært framboð Sveinbjargar Birnu

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
„Ég hef velt því mikið fyrir mér hvers vegna aðrir frambjóðendur hafa ekki kært framboð Sveinbjargar. Ég tel engan vafa um að þetta framboð hafi verið ólöglegt,“ segir Eva Hauksdóttir, penni á Kvennablaðinu.

Eins og fram hefur komið er Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, oddviti Framsóknar og flugvallarvina, búsett í Kópavogi. Þjóðskrá hefur nú til athugunar, eftir ábendingu frá yfirkjörstjórn Reykjavíkur, hvort Sveinbjörg skuli áfram skráð með lögheimili í Reykjavík, en lög kveða á um að frambjóðendur þurfi að hafa að hafa lögheimili í sveitarfélaginu til að teljast kjörgengir.

„Mér finnst bara afskaplega sorglegt að það sé töluvert stór hópur sem vill mismuna útlendingum á grundvelli trúar og menningarbakgrunns. Ég hef hins vegar ekki áhyggjur að þetta fari neitt illa,“ segir Eva jafnframt.

Hreiðar Eiríksson, sem skipar fimmta sæti Framsóknar og flugvallarvina, sagði sig frá lista flokksins, því hann taldi oddvitann, Sveinbjörgu,  ganga gegn stefnu flokksins. Hann hefur þó ekki í huga að kæra framboð hennar. „Það eru að minnsta kosti engar hugrenningar um þau mál í gangi innan flokksins, að mér vitandi. Sjálfsagt er þó einhverjum heitt í hamsi,“ segir Hreiðar sem segist sáttur með niðurstöður kosninganna.

Ummæli Sveinbjargar Birnu um að afturkalla ætti lóðaúthlutun mosku vöktu mikla athygli og sætti hún mikilli gagnrýni vegna þessa. Fylgi Framsóknar rauk þó upp í kjölfar ummælanna og náði flokkurinn tveimur mönnum inn í borgarstjórn.


Tengdar fréttir

Sveinbjörg Birna: „Ég lít á mig sem Reykvíking“

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, oddviti Framsóknar og flugvallarvina í Reykjavík, segist undanfarin misseri hafa búið til skiptis í íbúð unnusta síns í Fossvoginum og íbúð í Furugrund í Kópavogi.

„Við erum ekki rasistar“

Skiptar skoðanir eru uppi innan Framsóknarflokksins um ummæli Sveinbjargar Birnu Sveinbjörnsdóttur, oddvita flokksins í Reykjavík.

Klofningur vegna ummæla oddvita Framsóknar

„Það er því með sorg í hjarta sem ég læt hér með vita af því að ég styð ekki lengur framboð Framsóknar og flugvallarvina til borgarstjórnar í Reykjavík,“ segir Hreiðar Eiríksson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×