Innlent

Fundur í dag hjá ríki og BSRB

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Baráttufundur SFR, SLFÍ og LL um bætt kjör var í Háskólabíói um miðjan september.
Baráttufundur SFR, SLFÍ og LL um bætt kjör var í Háskólabíói um miðjan september. vísir/antonbrink
Undirritun kjarasamninga Starfsgreinasambandsins (SGS) og Flóabandalagsins við ríkið sem fara átti fram í gær var frestað þangað til á morgun að beiðni ríkisins. Heimildir blaðsins herma að frestunin eigi rót sína í þeirri vinnu sem á sér stað á vettvangi svonefnds SALEK-hóps þar sem unnið er að því að ná „heildstæðri niðurstöðu“ þar sem undir séu allir samningar ríkisins við stéttarfélög.

Á meðan samningur SGS og Flóans hefur legið fyrir í rúma viku, er kjaradeila þriggja stærstu félaga BSRB strand og búið að boða verkföll sem að óbreyttu hefjast í lok næstu viku. Fundur hefur hins vegar verið boðaður hjá BSRB félögunum þremur, SFR – stéttarfélagi í almannaþjónustu, Sjúkraliðafélagi Íslands (SLFÍ) og LL (Landssambandi lögreglumanna), með samninganefnd ríkisins hjá ríkissáttasemjara klukkan tvö í dag. Þegar samninganefndirnar funduðu síðast fyrir viku var staða deilunnar óbreytt og bar enn mikið í milli.

SALEK-hópurinn (samstarfsnefnd um launaupplýsingar og efnahagsforsendur kjarasamninga) fundaði á föstudag, auk þess sem heimildir blaðsins herma að fundað hafi verið um helgina og í gær. Í hópnum eiga sæti ríkissáttasemjari og fulltrúar samtaka á vinnumarkaði, bæði atvinnurekenda og verkalýðshreyfinga.

Meðal þess sem rætt hefur verið á þessum vettvangi, þar sem að frumkvæði ríkissáttasemjara hefur síðustu vikur verið leitað leiða til að innleiða hér nýtt fyrirkomulag kjaraviðræðna að norrænni fyrirmynd, er hvort samræming lífeyrisréttinda milli opinbera og almennavinnumarkaðarins geti verið hluti af „mjúkri lendingu“ yfirstandandi samningalotu.

Árni Stefán Jónsson. formaður SFR, vonast eftir útspili ríkisins í dag.vísir/anton
Árni Stefán Jónsson, formaður SFR, segir vonir standa til þess að á fundinum í dag leggi ríkið eitthvað meira til málanna en verið hafi á síðustu fundum, sér í lagi í ljósi þess að fyrir liggi samningur ríkisins við Flóann og SGS. Til þess að ná samningum við SFR, SLFÍ og LL þurfi hins vegar að ræða við félögin. Að ná niðurstöðu sem einnig feli í sér samræmingu lífeyrisréttinda sé bæði stórt og flókið viðfangsefni.

„Það er mjög erfitt að klára þetta einn tveir og þrír. En það er ennþá verið að ræða þetta,“ segir hann. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×