Erlent

Fundu sólkerfi með sjö reikistjörnum á stærð við Jörðina

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Uppgötvunin þykir stórmerkileg.
Uppgötvunin þykir stórmerkileg. Mynd/ESO
Stjörnufræðingar hafa fundið sólkerfi með sjö reikistjörnum á stærð við Jörðina í aðeins 40 ljósára fjarlægð. Að minnsta kosti sex innstu reikistjörnurnar eru álíka stórar og heitar og Jörðin.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá ESO, Stjörnustöð Evrópulanda á suðurhveli, en NASA, Geimvísindastofnun Bandaríkjanna stendur nú fyrir kynningu á uppgötvuninni sem sjá má í beinni útsendingu hér að neðan.

Stjörnufræðingar notuðu sjónauka víða um heim og hafa þeir staðfest tilvist að minnsta kosti sjö lítilla reikistjarna í kringum köldu rauðu dvergstjörnuna TRAPPIST-1. Reikistjörnurnar, sem nefnast TRAPPIST-1b, c, d, e, f, g og h, í röð frá móðurstjörnunni, eru allar álíka stórar og Jörðin.

Þrjár reikistjarnanna í lífbelti sólkerfisins

Hefur vísindamönnum tekist að afla upplýsinga um stærð, efnasamsetningu og sporbrautir reikistjarnanna og í ljós hefur komið að minnsta kosti sex innstu reikistjörnurnar eru álíka stórar og heitar og Jörðin.

Samkvæmt grein sem birtist í dag í tímaritinu Nature eru þrjár reikistjarnanna í lífbelti sólkerfisins og gætu þar af leiðandi haft fljótandi vatn á yfirborði sínu og þannig aukið líkurnar á að í kerfinu gæti leynst líf.

Sólkerfið hefur bæði mestan fjölda reikistjarna á stærð við Jörðina sem fundist hefur til þessa og mestan fjölda hnatta sem gætu haft fljótandi vatn á yfirborðinu.

„Þetta er einstakt sólkerfi — ekki aðeins vegna þess að við fundum svo margar reikistjörnur í því, heldur vegna þess að þær eru álíka heitar og Jörðin!“ sagði Michaël Gillon við STAR stofnunina í Liėgeháskóla í Belgíu.

Nánar má lesa um uppgötvunina á Stjörnufræðivefnum auk þess sem að fjallað verður um reikistjörnurnar í kvöldfréttum Stöðvar klukkan 18.30.

SkýringarmyndVísir/Graphic News



Fleiri fréttir

Sjá meira


×