Erlent

Fundu líkamsleifar sex ungra barna í íbúð í Rússlandi

Atli Ísleifsson skrifar
Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Myndin tengist fréttinni ekki beint. Vísir/EPA
Lögregla í Rússlandi hefur handtekið 51 árs gamlan mann vegna gruns um að hafa drepið sex börn sín – öll sjö ára eða yngri – og eiginkonu. Líkamsleifar barnanna fundust í íbúð fjölskyldunnar í Nizhny Novgorod.

Talsmaður lögreglu segir að faðirinn, Oleg Belov, hafi verið handtekinn í bænum Kovrov í umdæminu Vladimír í gær.

Í frétt Russia Today segir að Belov hafi sýnt lögreglu mótþróa þegar hann var handtekinn, en að enginn lögreglumaður hafi slasast í aðgerðinni.

Starfsmenn leikskóla barnanna höfðu samband við lögreglu, en þau höfðu hætt að mæta í skólann þann 25. júlí síðastliðinn. Í yfirlýsingu frá lögreglu segir að enginn hafi svarað þegar lögregla hafi bankað upp á í íbúð fjölskyldinnar í gær og að lokum hafi lögreglumenn brotið sér leið inn um glugga. Þar hafi líkamsleifar barnanna fundist.

Saksóknari segir að nágrannar hafi séð föður barnanna yfirgefa húsið daginn áður.

„Þetta voru ekki einu sinni lík, bara leifar,“ er haft eftir heimildarmanni Russia Today. Þá er talið að maðurinn hafi einnig banað móður barnanna. Hún var með barni.

Nágrannar fjölskyldunnar lýsa henni sem „mjög trúaðri, þar sem börnunum hafi verið bannað að borða kjöt og fisk.“

Börnin voru sex – þrjár stelpur á aldrinum sjö, fimm og eins árs og þrír strákar á aldrinum sex, þriggja og tveggja. Að sögn lögreglu fundust líkamsleifar barnanna í plastpokum.

Russia Today greinir frá því að Belov hafi áður fyrr verið meðlimur kirkju sjöunda dags aðventista í Vladimír-umdæmi. Hann hafi hins vegar verið rekinn úr söfuðinum vegna framhjáhalds og síðar flutt til Nizhny Novgorod þar sem hann stofnaði fjölskyldu.

Barnaverndaryfirvöld í Rússlandi segja fjölskylduna hafa verið mjög brotna. Árið 2011 var farið fram á að Belov yrði sviptum umgengnisrétti en móðirin hafi grátbeðið yfirvöld um að gera það ekki.

Á þessu ári hafi móðirin hins vegar farið fram á að Belov yrði sviptur réttinum, en hún hafi aldrei mætt í réttarsal 8. og 27. júlí.

Síðdegis í gær fann lögregla lík eldri konu í bænum Gorokhvets þar sem Belov bjó áður fyrr. Er nú kannað hvort um móður Belov sé að ræða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×