Erlent

Fundar með sendiherra vegna njósnamáls

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Angela Merkel kallaði sendiherra Bandaríkjanna á fund í gær vegna njósnamáls.
Angela Merkel kallaði sendiherra Bandaríkjanna á fund í gær vegna njósnamáls. fréttablaðið/epa
Angela Merkel, kanslari Þýskalands, fundaði með sendiherra Bandaríkjanna í Þýskalandi í gær til að ræða ný gögn sem Wikileaks birti á miðvikudaginn.

Gögnin sýna fram á njósnir NSA, þjóðaröryggisstofnunar Bandaríkjanna, um þýska ráðherra. Árið 2013 lak bandaríski uppljóstrarinn og fyrrverandi verktaki NSA, Edward Snowden, skjölum um njósnir stofnunarinnar um kanslarann Angelu Merkel en nú er ljóst að njósnirnar voru umfangsmeiri en áður var talið.

Skjölin sýna að bandaríska þjóðaröryggisstofnunin hleraði 69 símanúmer háttsettra þýskra embættismanna, til dæmis ráðherra í ríkisstjórn Þýskalands auk aðstoðarmanna Merkel, frá árinu 2010 til ársins 2012.

„Þetta er algjörlega fáránlegt,“ sagði Sigmar Gabriel, fjármálaráðherra Þýskalands.

Thomas de Maiziere, innanríkisráðherra Þýskalands, sem ber höfuðábyrgð á öryggismálum, tók í sama streng. „Traust okkar til Bandaríkjanna hefur minnkað,“ sagði hann.

„Skjölin sem birt voru í dag [á miðvikudaginn] sýna enn fremur fram á að umfang njósnastarfsemi Bandaríkjanna nær til Þýskalands og grunnstoða Evrópusambandsins,“ sagði Julian Assange, forsprakki Wikileaks, um lekann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×