Innlent

Funda vegna alvarlegrar stöðu

stefán rafn sigurbjörnsson skrifar
Páll útilokar ekki frekari aðgerðir.
Páll útilokar ekki frekari aðgerðir. Fréttablaðið/Pjetur
„Það er grafalvarlegt að ríkið reyni ekki að leita lausna á meðan verkföll hafa dregist á langinn og bitna alvarlega á samfélaginu,“ segir Páll Halldórsson, formaður Bandalags háskólamanna.

Fulltrúar BHM funduðu með fulltrúum ríkisins hjá Ríkissáttasemjara í gær án árangurs. Forysta BHM hefur boðað til félagsfundar vegna þeirrar stöðu sem komin er upp. Aðspurður vill Páll ekkert gefa upp um hugsanleg útspil BHM en hann segir að fundurinn sé fyrst og fremst hugsaður til að fara yfir stöðu mála með félagsmönnum. Þá segir Páll að félagið hafi ekki útilokað það að ráðast í frekari aðgerðir.

Sum aðildarfélög BHM hafa veitt undanþágur frá verkfallsaðgerðum vegna neyðarástands á nokkrum stofnunum. Til að mynda mættu geislafræðingar og náttúrufræðingar til vinnu á Landspítalanum til að létta undir með starfsfólki spítalans. Þá hefur nokkrum starfsmönnum Matvælastofnunar verið veitt undanþága til að mæta til starfa. Enn fremur er forstöðumaður Húsdýra- og fjölskyldugarðsins undanþeginn verkfallsaðgerðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×