Innlent

Fullorðnir eiga rétt á lyfjum við ADHD

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og formaður velferðarnefndar.
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og formaður velferðarnefndar. MYND/GVA
„Miðað við texta fjárlagafrumvarps verður greiðsluþátttöku hætt á lyfjum við ADHD hjá fullorðnum. Við lýsum yfir áhyggjum vegna þessa."

Þetta segir Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, en hún vakti athygli á þessu á Alþingi í gær. Málið var síðan rætt í velferðarnefnd í dag þar sem Sigríður gegnir formennsku.

Embættismenn úr velferðarráðuneytinu voru gestir nefndarinnar í tengslum við umfjöllun hennar um fjárlagafrumvarpið

„Við teljum óeðlilegt að einn sjúklingahópur sé tekinn út úr fjárlagafrumvarpinum, sérstaklega þegar vitað er að lyfið gagnast fullorðnum," segir Sigríður.

Eftir fundinn í dag er ljóst að það væri ekki svo að stefnan væri að hækka greiðslur hjá fullorðnu fólki. Vilji sé til þess að tryggja að þeir sem hafi fengið greiningu fái greiðsluþátttöku.

„Það er hins vegar ánægjuefni að það eigi að setja reglur um að ekki megi ávísa lyfin nema á þá sem eru með greiningu. Þessi lyf verða að fara til þeirra sem þurfa á þeim að halda og við fögnum því að sjónum sé nú beint að heilbrigðiskerfinu, það er, að lækninum en ekki sjúklingnum," segir Sigríður að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×