Innlent

Frysta loðnuhrogn þrátt fyrir válynd veður

svavar hávarðsson skrifar
FAXi RE. Nýtti skjólið af Vestmannaeyjum til að sækja loðnufarm í vondu veðri.
FAXi RE. Nýtti skjólið af Vestmannaeyjum til að sækja loðnufarm í vondu veðri. mynd/hb grandi
Byrjað var að frysta loðnuhrogn í vinnslustöð HB Granda á þriðjudag. Farmur úr Faxa RE var nýttur en þroski hrognanna var ekki eins góður og menn óska.

Hins vegar er mikilvægt að koma vinnslunni í gang áður en hrognafrystingin fer á fullan skrið, segir Gunnar Hermannsson, verkstjóri í loðnuhrognavinnslu HB Granda á Akranesi, í frétt á vef fyrirtækisins.

Í fyrra hófst hrognaskurður og -frysting á Akranesi 21. febrúar þannig að nokkrum dögum munar á milli ára.

Gunnar hefur líkt og fleiri áhyggjur af því að tíðarfar setji strik í reikninginn varðandi veiðarnar á hrognatökutímanum. Útlitið sé ekki gott, en þrátt fyrir válynd veður skili áhafnir skipanna afla með útsjónarsemi. Hrognafyllingin er orðin ágæt og vonir standa til að hrognaþroskinn verði ákjósanlegur allra næstu daga, segir Gunnar.

Um eitt hundrað manns starfa við vinnslu á Akranesi á vertíðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×