Innlent

Frumvarpi um Landsrétt skilað til innanríkisráðherra

fanney birna jónsdóttir skrifar
Með tilkomu hins nýja dómstigs, Landsréttar, mun hæstaréttardómurum fækka um þrjá. Þar verða aðeins tekin fyrir veigamikil og fordæmisgefandi mál.
Með tilkomu hins nýja dómstigs, Landsréttar, mun hæstaréttardómurum fækka um þrjá. Þar verða aðeins tekin fyrir veigamikil og fordæmisgefandi mál. Fréttablaðið/Stefán
Nefnd sem innanríkisráðherra skipaði í ágúst 2013 til að semja reglur um skipan og starfsemi dómstóla, upptöku millidómstigs og fyrirkomulag við skipan dómara hefur skilað Ólöfu Nordal innanríkisráðherra tillögum sínum.

Nefndin hefur samið drög að lagafrumvörpum sem lúta að upptöku millidómstigs. Í bréfi nefndarinnar til ráðherra kemur fram að upptaka millidómstigs sé umfangsmikið verkefni sem krefjist víðtækra breytinga á lögum, einkum lögum um dómstóla, lögum um meðferð einkamála og lögum um meðferð sakamála.

Í frumvörpunum er millidómstigið kallað Landsréttur, þar sem fimmtán dómarar munu eiga sæti en þrír þeirra munu dæma í hverju máli. Þannig verða litlar breytingar á starfsemi héraðsdómstólanna og verður dómum þeirra og úrskurðum þannig almennt skotið til Landsréttar í stað Hæstaréttar.

Landsrétti verður skipað á milli héraðsdómstólanna og Hæstaréttar sem verður eftir sem áður æðsti dómstóll Íslands. Landsréttur verður í Reykjavík og mun taka til landsins alls.

Hæstaréttardómurum verður fækkað úr níu í sex. Fimm dómarar munu hverju sinni taka þátt í meðferð máls fyrir dómi.

Starfandi dómarar við Hæstarétt munu þó halda stöðu sinni og því munu fleiri dómarar væntanlega starfa við réttinn fyrstu árin til bráðabirgða. Í greinargerð með frumvarpinu segir að þetta gæti reynst heppilegt enda ljóst að töluverð vinna muni fara í það fyrstu starfsárin að taka afstöðu til áfrýjunarbeiðna og móta fordæmi til framtíðar í þeim efnum.

Þeir sem þegar hafa verið skipaðir hæstaréttardómarar hafa forgang til skipunar í embætti dómara við Landsrétt kjósi þeir það.

Í núgildandi lögum er gert ráð fyrir að ráðherra afli samþykkis Alþingis fyrir skipun í dómaraembætti ætli hann sér ekki að skipa þann umsækjanda sem dómnefnd hefur talið hæfastan. Með frumvarpinu er þetta fyrirkomulag afnumið en þó áskilið að Alþingi samþykki tillögu ráðherra um skipun dómara í Hæstarétt Íslands.

Markmið þessara breytinga er annars vegar að koma til móts við alþjóðlegar kröfur um milliliðalausa sönnunarfærslu á áfrýjunarstigi. Eins og staðan er í dag eru til að mynda engar vitnaleiðslur í Hæstarétti nema í undantekningartilvikum. Þannig er gert ráð fyrir milliliðalausri sönnunarfærslu í Landsrétti, þar sem skýrslutökur verða teknar upp í hljóði og mynd í héraði og ekki endurteknar fyrir Landsrétti nema þörf sé á. Hins vegar er markmið breytinganna að létta álagi af Hæstarétti Íslands og gera honum kleift að starfa sameinaður í einni deild svo að honum verði betur fært að sinna hlutverki sínu sem fordæmisgefandi dómstóll.

Reglur um áfrýjun mála frá héraðsdómi til Landsréttar verða svipaðar reglum sem nú gilda um áfrýjun mála til Hæstaréttar. Áfram verður unnt að áfrýja héraðsdómum beint til Hæstaréttar, en þó aðeins með leyfi réttarins sjálfs.

Að endingu er gert ráð fyrir að allir dómarar Hæstaréttar geri grein fyrir atkvæði sínu ólíkt því sem nú er, með því að rita sín eigin dómsatkvæði eða skrifa undir atkvæði annarra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×