Menning

Frumsýna myndbandið akkúrat ári eftir tökudag

Guðný Hrönn skrifar
Birta Rán Björgvinsdóttir og Guðný Rós Þórhallsdóttir.
Birta Rán Björgvinsdóttir og Guðný Rós Þórhallsdóttir. Vísir/GVA
Birta Rán og Guðný Rós, konurnar á bak við framleiðslufyrirtækið Andvara, frumsýna í dag myndband við atriðið Elsku stelpur sem vann Skrekk árið 2015

„Elsku stelpur er atriði stelpnanna í Hagaskóla sem unnu hæfileikakeppnina Skrekk árið 2015. Við Guðný sátum saman í litlum fólksbíl á leiðinni heim eftir langan og kaldan tökudag í skólanum þegar við sáum myndbandið. Það var í lélegum símagæðum og allt á hreyfingu en kraftur og mikilvægi þessa atriðis leyndi sér ekki. Við allavega sátum þarna með gæsahúð þegar við litum hvor á aðra og fengum þá hugmynd að gera almennilegt myndband við atriðið,“ segir Birta Rán um myndbandið við Elsku stelpur. Atriðið sem um ræðir, Elsku stelpur, er femínískur ljóða- og dansgjörningur og skilaboðin hreyfðu við Birtu og Guðnýju. Myndbandið var tekið upp á Valentínusardaginn í fyrra.

„Í rauninni hefur myndbandið ekki verið tilbúið til frumsýningar fyrr en bara núna. Ástæðan er sú að lagið sem stelpurnar notuðu í atriðið sitt er frá stórri hljómsveit en var svo tekið og remixað af enn stærri DJ svo leyfismálin voru mjög snúin. En rétt tæpu ári frá því að við fórum að vesenast í því fengum við leyst úr leyfisflækjunni,“ útskýrir Birta. Þess má geta að hópurinn á bak við Elsku stelpur notaði lagið You & Me með Disclosure í endurhljóðblöndun Flume. Hvað er svo á döfinni hjá Andvara? „2017 verður heldur betur viðburðaríkt hjá Andvara,“ segir Guðný.

„Ég er að útskrifast úr Kvikmyndaskólanum og við erum að undirbúa okkur fyrir útskriftarmyndina mína. Myndin, sem ég leikstýri og skrifa og Birta skýtur, mun vera falleg og litrík stuttmynd sem fjallar um mann sem lifir góðu lífi með kettinum sínum og kú eftir að uppvakningar tóku yfir Ísland. Í byrjun febrúar skutum við síðan tónlistarmyndband fyrir tónlistarkonuna Maríu Magnúsdóttur, eða Mimru, sem kemur út bráðlega. Því miður megum við ekki segja of mikið frá því eins og staðan er núna en það verður athyglisvert að sjá hvað fólk segir um það,“ segir Guðný.

Meðfylgjandi er myndbandið við atriðið Elsku stelpur. Undir stillingarhnappnum á Youtube-spilaranum er hægt að nálgast bæði íslenskan og enskan texta. 




Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×