Erlent

Frumskógar-Jabbah dæmdur í 30 ára fangelsi

Ingvar Þór Björnsson skrifar
Eitt vitnanna í málinu sagði að Jabbah hafi fyrirskipað að hjarta fanga hópsins yrði eldað fyrir stríðsmenn sína.
Eitt vitnanna í málinu sagði að Jabbah hafi fyrirskipað að hjarta fanga hópsins yrði eldað fyrir stríðsmenn sína. Vísir/Getty
Líberíski stríðsherrann „Frumskógar-Jabbah“ var í dag dæmdur til þrjátíu ára fangelsisvistar af bandarískum dómstól fyrir að greina ekki rétt frá aðkomu sinni að borgarastríðinu í Líberíu. BBC greinir frá.

Mohammed Jabbetah var sakfelldur fyrir svindl á innflytjendalögum og fyrir að fullyrða ranglega við bandarísk yfirvöld að hann hafi ekki tilheyrt neinni stríðandi fylkingu í stríðinu. Komið hefur í ljós að Jabbah hafi verið yfirmaður tveggja hersveita. Hann flutti til Bandaríkjanna á tíunda áratug síðustu aldar en hann var handtekinn í apríl árið 2016.

Eitt vitnanna í málinu sagði að Jabbah hafi látið elda hjarta úr fanga fyrir stríðsmenn sína. Þá komu vitni frá Líberíu til Bandaríkjanna til að bera vitni um ásakanir um morð, nauðganir, limlestingar og mannát sem hann á að hafa stundað sjálfur og menn sem voru undir hans stjórn.

Amnesty International hefur fagnað niðurstöðu dómsins og kallað hann „fyrsta skrefið í átt að réttlæti fyrir fórnarlömb líberíska borgarastríðsins.“ Benda þau þó á að hann hafi ekki verið dæmdur fyrir stríðsglæpi sína. „Það má ekki gleyma því að enginn hefur þurft að taka ábyrgð á stríðsglæpunum í Líberíu,“ segir Sabrina Mahtani, svæðisstjóri Amnesty í Vestur-Afríku. „Líberísk yfirvöld verða að koma á fót stríðsdómstól til að láta þá sem eru sekir axla ábyrgð,“ segir hún.

Um 250.000 manns létu lífið í borgarastríði landsins sem stóð yfir í fjórtán ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×