Viðskipti innlent

Frumkvöðlastarf krefst fórna

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Vanderveldt á aðild að stofnun innan Sameinuðu þjóðanna sem ber titilinn Alþjóða frumkvöðlaráðið og vinnur að því að styðja við nýsköpun víða um heim.
Vanderveldt á aðild að stofnun innan Sameinuðu þjóðanna sem ber titilinn Alþjóða frumkvöðlaráðið og vinnur að því að styðja við nýsköpun víða um heim. vísir/gva
„Það krefst fórna að vera frumkvöðull. Þú þarft að geta staðið alltaf uppréttur, sama hversu oft þú fellur. Þú þarft að reyna aftur, aftur og aftur alveg þangað þú nærð árangri,“ sagði frumkvöðullinn Ingrid Vanderveldt, stofnandi verkefnisins Empowering a Billion Women by 2020.

Verkefninu er ætlað að styðja við bakið á konum í nýsköpun. Vanderveldt var framsögumaður á Startup Iceland-ráðstefnunni sem hófst í Hörpu í gær.

Vanderveldt sagði að hún hefði stofnað nokkur fyrirtæki og áður en hún hefði komist á þann stað sem hún er á í dag hefði henni tekist að missa allt sem hún átti. „Það er ákveðinn kafli í lífi mínu þar sem ég var heimilislaus,“ sagði hún. Hún sagði að á þeim tíma hefðu foreldrar hennar viljað fá hana heim til sín. Það hefði þó verið mikið högg fyrir sjálfstraustið að þurfa að gera það og hún hefði því hafnað boði foreldra sinna.

„En um leið og ég missti allt, áttaði ég mig líka á því að það er mjög mikilvægt að vera umvafin bjartsýnu fólki sem skilur hvað það er sem þú ert að gera. Og ekki einungis það, heldur að fólkið átti sig á því hvernig það geti hjálpað þér áfram og hvernig þið getið hjálpað hvert öðru,“ sagði Vanderveldt. Í hennar tilfelli átti hún að góðan vin sem var reiðubúinn til að hjálpa henni og hýsa hana þegar hún var á götunni. Hann vildi hjálpa henni að byggja sig upp.

Hún sagðist líka hafa sannfært sjálfa sig um það að allar hennar raunir myndu hafa þýðingu fyrir hana í framtíðinni og hún gæti miðlað af reynslu sinni.

Vanderveldt sagði að þeir sem ætla að byggja upp eigin feril sem frumkvöðlar þyrftu að hafa þrennt í huga. Í fyrsta lagi yrðu þeir að hafa læriföður/lærimóður; einhvern sem getur leiðbeint.

„Og til þess að tryggja sér læriföður sem getur kennt manni og hjálpað manni verði maður að vita hvernig maður sjálfur getur verið til gagns fyrir þann hinn sama.

Það sé lykilatriði fyrir frumkvöðla að hugsa ekki bara hvernig einhver geti orðið þeim að gagni heldur líka að hugsa hvernig þeir sjálfir geti orðið öðrum að gagni. Í öðru lagi verði frumkvöðlar bæði að huga að því hvernig þeir geti skapað öðrum mönnum pening og hvernig þeir sjálfir geti grætt pening á uppfinningunni.

„Í þriðja lagi er frumkvöðlahugsunin; þið verðið að velta fyrir ykkur hvernig þið getið notað tæknina í ykkar þágu,“ segir hún. Það verði að huga bæði að því hvernig hægt sé að nota tæknina til að hámarka tekjur og til þess að lágmarka kostnaðinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×