Innlent

Frumbernskan áhrifameiri en áður var talið

Una Sighvatsdóttir skrifar
Fæstir eiga nokkrar minningar af lífinu fyrir tveggja ára aldur, en rannsóknir leiða sífellt betur í ljóst að þetta fyrsta tímabil mannsævinnar leggur grunninn að því sem koma skal og þar skiptir tengslamyndun við foreldra lykilmáli.

Bresk stjórnvöld vinna nú að því að innleiða aukna geðheilbrigðisþjónustu við foreldra ungbarna, en á Íslandi er sambærileg þjónusta af skornum skammti og ekki á fjárlögum.

Dr. Amanda Jones er sérfræðingur hjá bresku heilbrigðisþjónustunni og var fenginn sem ráðgjafi ríkisstjórnar Bretlands við að innleiða nýja stefnuna, þar sem sjónum er beint að geðheilbrigði foreldra strax frá fyrstu stigum meðgöngu.

Heilinn þroskast mikið í frumbernsku

„Fyrstu mótunarár barnsins er þegar það lærir samskipti, finnur að það sé metið og lærir sjálft að eiga samskipti. Heilinn tekur út afa mikilvægan þroska á þessum fyrstu árum æviskeiðs barnsins," segir Amanda.

„Ef barn er vanrækt, verður fyrir áfalli eða er misnotað með einhverjum hætti, eða ef móðirin á við andleg veikindi að stríða og verður í kjölfarið mjög veik, þá fer barnið óhjákvæmilega á mis við það flókna, andlega öryggi sem það þarf á að halda."

Andleg veikindi þróast oft á meðgöngu eða eftir fæðingu

Rannsóknir sýna að allt að 20% kvenna þróa með sér andleg veikindi á meðgöngu eða fyrstu mánuðina eftir fæðingu en allt að helmingur þeirra er aldrei greindur og fær því enga hjálp, sem getur haft langvarandi áhrif á fjölskyldulífið og á barnið sjálft

„Það er nógu erfitt að annast barn hafi maður flensu, líkamlega flensu. Stríði móðir við andleg veikindi og þarf um leið að annast ungbarn segir sig sjálft að það er afar erfitt," segir Amanda.

Afleiddur kostnaður milljarðar á ári vegna seinni tíma vandamála

Ný skýrsla frá London School of Economics kortleggur efnahagslegar afleiðingar af andlegum veikindum móður án inngrips á þessum mótunartíma barnsins og er þar áætlað að vanræksla við þennan málaflokk kosti breskt samfélag yfir 8 milljarða punda á hverju ári.

Sá kostnaður kemur að mestu til vegna vandamála sem barnið verður fyrir síðar á ævinni. Yfirfært á Ísland má ætla að samfélagslegur kostnaður hér nemi 7 milljörðum króna á ári.

Bretar setja fordæmið

Bresk stjórnvöld hafa brugðist við skýrslunni með því að fjárfesta í aukinni geðheilbrigðisþjónustu við foreldra ungbarna. „Það er brýnt að grípa snemma í taumana. Og það fer eftir því hvar við setjum viðmiðunarmörkin, en ef við miðum þau við tímabilið frá getnaði og fyrstu ár lífsins þá er augljóst að við þurfum að breyta því hvernig við högum okkar heilbrigðisþjónustu," segir Amanda.

Hér á landi veita Landspítalinn og Miðstöð foreldra og barna geðhjálp fyrir foreldra ungbarna en þjónustan er takmörkuð og ekki á föstum fjárlögum. Amanda er hér á landi í þeirra boði til að ræða við íslenska ráðamenn um hvernig innleiða mætti breska módelið á Íslandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×