Viðskipti innlent

Frosti og Máni taka við Midi.is

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Frosti og Máni eru komnir á fullt í miðasölu samhliða útvarpsmennskunni.
Frosti og Máni eru komnir á fullt í miðasölu samhliða útvarpsmennskunni. Visir
Útvarpsmennirnir Frosti Logason og Máni Pétursson, best þekktir fyrir þætti sína Harmageddon á X-inu 977, eru teknir við rekstri Midi.is. Síðan sér um miðasölu á tónleika, íþróttaviðburði og fleiri atburði.

„Við erum vel tengdir í tónlistabransanum og vitum hvernig hann virkar. Svo höfum við haldið endalaust marga viðburði í gegnum tíðina,“ segir Máni. Hann segist sjá sóknartækifæri hjá fyrirtækinu sem geti gert miklu betur. Búið sé að uppfæra miðasölukerfi sem séu með því fullkomnara sem þekkist hér á landi.

Nýja hlutverkið mun ekki hafa áhrif á Harmageddon sem þeir munu sinna samhliða rekstri Midi.is. Báðir hafa sterk tengsl við tónlistarheiminn en Máni hefur starfað sem umboðsmaður og Frosti var í hljómsveitinni Mínus á sínum tíma svo eitthvað sé nefnt.

Elmar Hallgríms Hallgrímsson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs 365, segir miklar væntingar til Mána og Frosta.

„Yfirgripsmikil þekking og reynsla þeirra mun nýtast vel í þeirri sókn sem framundan er hjá Miða.is.“

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×