Skoðun

Frjálshyggja eða félagshyggja?

Guðmundur Edgarsson skrifar
Ímyndaðu þér að maður banki upp á hjá þér og bjóði þér ævilanga áskrift að bókasafni sem hann er nýbúinn að opna. Áskriftin kostar vissa upphæð á mánuði en þú verður að greiða með Visa-rað alla starfsævina á enda. Ekki er boðið upp á að segja upp áskriftinni nema þú flytjir úr götunni.

Bóka- eða verkfæraleiga?

Þú tjáir manninum að þú notir lítið bókasöfn. Þú værir frekar til í að gerast áskrifandi að verkfæraleigu en bókaleigu. Verkfæri kosta jú drjúgan skildinginn. Svo myndi verkfæraleiga efla verkkunnáttu í götunni og gera íbúana meira sjálfbjarga t.d. við smíðar og viðhald. Erum við svo ekki alltaf að tala um að gera þurfi verkmenntun hærra undir höfði í skólakerfinu? Bókaleigu hefur þú hins vegar enginn not fyrir svo þú afþakkar boðið.

Þá setur maðurinn í dyrunum upp helgisvip og segir: „En bókasafnið verður miðstöð menningar og mannlífs í götunni. Þú mátt ekki bara hugsa um sjálfan þig; þú verður að hugsa um mikilvægi öflugs menningarlífs í götunni þinni! Og hvað með alla þá sem hafa ekki efni á bókum, er þér slétt sama um þá?“ Svo bætir maðurinn við og segir með þjósti: „Svo skal ég láta þig vita að við greiddum atkvæði um þetta hér í götunni og meiri hluti íbúanna sagði já þannig að þú verður að borga. Lýðræði gildir hér og ekkert múður!

Lýðræði eða lýðfrelsi?

En nú stöndum við frammi fyrir siðferðisspurningu. Á að skikka manninn til að kaupa áskriftina að bókasafninu?

Ef svar þitt er nei, þá er næsta víst að þú hneigist til frjálshyggju. Sönn frjálshyggja leggur áherslu á lýðfrelsi, þ.e að fólk ráði að mestu leyti sjálft hvernig það hagar sínu lífi og ver sínum peningum án þess að skaða aðra.

Ef svar þitt er já, þá aðhyllist þú líklega félagshyggju. Félagshyggja leggur áherslu á lýðræði, þ.e. að meiri hluti fólks ráði burtséð frá því hvort verið er að skaða aðra eða ekki. Sérstaklega ef tilfinningaþrunginn fagurgali fylgir með.

Hvort ertu, lýðfrelsissinni eða lýðræðissinni?




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×